HÉR ER KYNNT MIKILVÆGT SKREF Í ÞRÓUN BYGG-KERFISINS SEM ER AÐ KERFIÐ REIKNAR NÚ KOLEFNISLOSUN BYGGINGAREFNIS ALLRA NÝBYGGINGA SEM REIKNAÐAR ERU Í KERFINU.

Útreikningar á CO2 losun byggingarefna hússins verður sjálfkrafa til þegar gerð er kostnaðaráætlun fyrir það í BYGG-kerfinu.  Stór hluti húsa sem byggður er á landinu er nú þegar reiknaður í BYGG-kerfinu.

 

HVAÐA MÁLI SKIPTA ÞESSIR ÚTREIKNINGAR ÞIG ?

Ef þú ert að byggja þá velurðu væntanlega það byggingarefni sem þér hugnast best út frá útliti, gæðum, verði o.þ.h.  Kolefnislosun vegna framkvæmdarinnar hefur ekki verið eitt af því sem ráðið hefur þessu vali fram að þessu.  Nú er hins vegar að verða breyting á því og er ástæðan sú þróun sem horft er nú upp á í veðurfari í heiminum m.a. og er mikið í umræðunni.

Við eins og fjöldi annarra þjóða höfum nú skuldbundið okkur til að vera þáttakendur í að snúa þessari þróun við og draga úr þessari losun hjá okkur.

Þegar þú byggir þér hús þá stendur valið um að byggja það úr steinsteypu, timbri eða jafnvel úr öðrum efnum.  Þú getur valið þar á milli og þar að auki skipt út einstökum byggingarefnum.

Ef valið er að skipta út steinsteyptu húsi á móti timburhúsi af sömu stærð, þá myndi kolefnislosun byggingarefnisins minnka um um 105-135 kg CO2 á m2 hússins á byggingartíma eða um 30-35% samkvæmt þeim útreikningum sem nú liggja fyrir í BYGG-kerfinu.

Að minnka kolefnislosun annarra byggingarefna er gert með því að fara yfir „Umhverfisyfirlýsingu“ byggingarinnar, sem verður sjálfkrafa til í BYGG-kerfinu og skoða hvar kolefnislosunin er mest og prófa að setja þar inn annað byggingarefni með minn kolefnislosun.

Hver kolefnislosunin verður yfir allan líftíma hússins mun liggja fyrir í BYGG-kerfinu síðar á þessu ári.

Í Svíþjóð verður sú krafa lögleidd um næstu áramót að húsbyggjendur leggi fram Umhverfisyfirlýsingar fyrir allar nýbyggingar þar í landi.  Það er að kröfu Evrópusambandsins og verða byggingarnar að standast kröfur sem þar verða settar um hámarkslosun kolefnis.  Svíar áætla að kostnaður húsbyggjenda vegna þessa verði 4.800 Evrur (750.000 kr) á hvert séreignarhús.

Þegar samskonar krafa tekur gildi hér á landi þá spara húsbyggjendur sem notar BYGG-kerfið sér þá upphæð, sé reiknað með sama kostnaði við gerð Umhverfisyfirlýsinga hér á landi og Svíarnir áætla.

Reikna má með að teknar verði upp hliðstæðar kröfur hér á landi, enda ekki önnur aðferð líkleg til að tryggja minnkandi kolefnislosun í greininni.

 

HVAÐA MÁLI SKIPTIR ÞETTA FYRIR ÞJÓÐINA ?

Á landinu öllu voru byggðar 2690 íbúðir árið 2020 samkvæmt Þjóðskrá og af þeim voru séreignahús 807 eða rúmlega 30%.  Kostnaður við gerð Umhverfisyfirlýsinga fyrir sérbýlishúsin hefði verið um 600 miljónir króna miðað við áðurnefnda upphæð.  Að auki kemur kostnaður við samskonar yfirlýsingar fjöleignahúsa og atvinnuhúsnæðis, sem eigendur spara sér, en sem verður mun hærri upphæð á hvert slíkt hús.

Meðaltalslosun byggingarefna kg. CO2 á brúttófermeter húsa við nýbyggingar reiknast okkur til að vera um 300 kg CO2.  Líklega mun þessi losun mælast um 650-700 kg CO2/m2 yfir líftíma húsa.

Reiknað á þá 242 þúsund fermetra íbúða sem byggðar voru 2020 þá er losun þeirra um:

Á framkvæmdatíma.           72.600 tonn af CO2

Á líftíma húsanna       160-170.000 tonn af CO2

 

Mismunur á kolefnislosun við það að velja timburhús í stað steinhúss, minnkar kolefnislosun þess um 30 til 35% eða um 105-135 kg CO2 á m2 á byggingartíma eins og áður kom fram.  Þó að ekki liggi fyrir hvað mikið af þessum húsum voru timburhús þá er ljóst að þau eru í miklum minnihluta.

Líklegt er að svipað hlutfall kolefnislosunar haldist út líftíma húsa og miðað við það myndi Ísland spara 50-60.000 tonn af gróðurhúsalofttegundum á ári vegna íbúðabygginga miðað við 30-35% minnkun hennar. Giska má á að annað eins muni sparast við aðrar framkvæmdir

Þetta sýnir hversu miklum ávinningi megi ná með réttum aðferðum og réttum ákvörðunum og sýnir að það að reikna út hver ávinningnurinn getur orðið þarf ekki að kosta mikið.

Lesa má í greinargerðum að losun gróðurhúsalofttegunda vegna bygginga sé 30-40% af kolefnislosun landa.  Sé það hlutfall notað til að reikna hver minnkun kolefnislosunarinnar gæti orðið verður útkoman að jafnvel megi reikna með umtalsvert meiri minnkun losunar en hér er reiknað með.

Þó að minnst af því byggingarefni sem notað er hérlendis sé innlend framleiðsla þá er það okkar framlag að velja byggingarefni sem ekki losar mikið af kolefni. Enginn annar en húsbyggjandinn stjórnar því.

Miðað við áður nefndan áætlaðan kostnað við gerð og skil á Umhverfisyfirlýsingum þá munu þær kosta  bilinu 1,5-2,0 miljarða króna á ári hér á landi fyrir öll ný hús.  Kostnaður fjölbýlis- og atvinnuhúsnæðis er gróft áætlaður þar sem nánari upplýsingar um þau hús vantar.

Umhverfisyfirlýsing gerð í BYGG-kerfinu kostar hins vegar ekkert á meðan ekkert sérstakt gjald er tekið fyrir gerð hennar og mun sá kostnaður aldrei verða nema lítið brot af þessum kostnaði.

 

HVER ER ÁVINNINGURINN ?

  1. Árleg minnkun kolefnislosunar við nýbyggingar getur orðið 30-35% á mjög stuttum tíma samkvæmt framansögðu.
  2. Miðað við að kolefnislosun í landinu fyrir utan stóriðju sé um 2,00 miljón tonn og að hlutur losunar við byggingar sé um 35% af þeirri losun, þá er hann um 0,70 miljón tonn. Sé minnkun á losuninni um 30% þá er hún 0,21 miljón tonn.  Vegna takmarkaðra upplýsinga er hér reiknað með minni árangri við losun eða um 0,1 miljón tonnum.  Hvort sem minnkun á kolefnislosuninni er 0,1 eða 0,2 miljón tonn þá þýðir það minnkun á kolefnislosun á Íslandi um 5-10% af heildarlosuninni, án stóriðju.
  3. Til að ná þessu markmiði þarf að setja kröfur um hámarkslosun og reikna síðan losun hverrar nýbyggingar á hverjum tíma. Sá útreikningur verður sjálfkrafa til með notkun BYGG-kerfisins, sem er nú þegar notað við útreikninga á stórum hluta húsbygginga á landinu.
  4. Áætlað hefur verið að kostnaður húsbyggjenda við gerð Umhverfisyfirlýsinga húsa sé á bilinu 750 til 1500 þúsund krónur á hús eða alls 1,5-2,0 miljarðar fyrir allar nýbyggingar ársins hér á landi. Með notkun BYGG-kerfisins verður sá kostnaður hverfandi.
  5. Ekki þarf að láta hanna húsið og láta síðan reikna losunina, breyta því síðan ef losunin er of mikil og endurtaka hönnun og útreikningana. Nota má staðlaðar áætlanir BYGG-kerfisins til að grófáætla losunina og prófa strax að skipta um byggingarefni ef ástæða er til þess, svo að ekki þurfi að kosta til endurtekninnar hönnunar og útreiknings á kolefnislosuninni.

 

HVER ER STAÐAN ?

Búið er að reikna CO2 gildi þeirra magntöluliða verðskrár BYGG-kerfisins sem skipta aðalmáli við útreikninga þá sem hér er fjallað um og bæta útreikningum kolefnislosunarinnar við BYGG-kerfið.  Losunargildin sem reiknað er með eru opinber gildi frá norðurlöndunum aðallega Svíþjóð og Finnlandi.

Enn eru magntöluliðir lagna og raflagna ekki komnir inn í útreikningana, en verið er að reikna þá út.  Við gerum þó ekki ráð fyrir að þeir muni vega þungt í útreikningunum og teljum ólíklegt að auðvelt verði að velja þar önnur efni að einhverju marki en nú er venjan að nota.

Næsta verkefni í þróun BYGG-kerfisins er að bæta viðhaldsþættinum yfir líftíma hússins við kolefnisútreikningana.  Stefnan er að því verki verði lokið á þessu ári.

Þó að við opnum nú á útreikninga kolefnislosunar bygginga þá lítum við á að næstu fjórir mánuðir verði prufutími sem verður notaður til að leiðrétta einstaka magntöluþætti og hugsanlegar villur. Verðbankinn inniheldur nú um 6000 magntöluliði og er því öruggt að einhverjar villur leynast þar enn.

Við vonum að við fáum frá notendum ábendingar og spurningar sem gefa okkur tilefni til að skoða einstaka magntöluliði á meðan á prufutímanum stendur.