Aukin umsvif

AUKIN UMSVIF MEÐ STÆKKUN OG FJÖLGUN FYRIRTÆKJA, BÆTTUM REKSTRI, FJÖLGUN STARFSMANNA, VÖRUÞRÓUN, ENDURBÓTUM Á AÐSTÖÐU, BÚNAÐI OG VÉLUM OG MEÐ NÁMSKEIÐAHALDI OG KENNSLU.

untitled

Dæmið sem hér er tekið er uppbygging á starfsemi í þeim tilgangi að fjölga störfum í landinu, en einnig til að auka útflutning og þar með að auka gjaldeyri landsins.

Hér var unnið fyrir ullariðnaðinn í landinu og stóð verkefnið yfir í tíu ár.
Verkefnið beindist að því að nýta mögulegan markað erlendis fyrir íslenskar prjónavörur, sem talinn var vera til staðar, með því að aðstoða við að byggja upp prjóna- og saumastofur sem gætu tekið að sér að framleiða þessa vöru.
Ákveðið var að fara yfir möguleika þeirra fyrirtækja sem þegar voru starfandi til að mæta vaxandi eftirspurn, aðstoða þau við uppbyggingu og vöruþróun og aðstoða nýja aðila við að hefja framleiðslu þessarar vöru. Allt landið var undir og allir sem höfðu áhuga og getu, þeir gátu orðið þáttakendur í verkefninu.

Þetta verkefni var stutt af Iðnaðarráðuneytinu, Félagi íslenskra iðnrekenda, Iðnþróunarsjóði o.fl. og má áætla þeirra framlag um 50 miljónir króna á ári á þessu tímabili á verðlagi ársins 2017.

 

Aukin umsvif:

Mat á framleiðslugetu þeirra fyrirtækja sem voru í rekstri við upphaf verkefnisins og aðstoð við uppbyggingu þeirra, að teknu tilliti til vaxtarmöguleika hvers og eins og aðstoð við stofnun og uppbyggingu nýrra fyrirtækja, allt í þeim tilgangi að mæta aukinni eftirspurn og fjölga störfum í landinu.


Bættur rekstur:

Reksturinn metinn út frá verði á framleiðsluvörum, efniskostnaði og afköstum. Skoða hvaða kerfi væri notað til að verðleggja vöru og fylgjast með útkomu hverrar vörutegunadar, athuga hvort draga megi úr affölum, útiloka vörur sem tap var á og leggja áhersla á hagkvæma vöruflokka.

 

Aukinn mannafli:

Athugun á hvaða aðgengi væri að viðbótarstarfsfólki og hvað væri hægt og hagkvæmt að bæta við af starfsfólki hjá hverju fyrirtæki til að mæta aukinni eftirspurn.


Vöruþróun:

Farið var yfir möguleika hjá fyrirtækjunum til vöruþróunar, svo sem nýrra prónagerða og munstra, grófleika efnis og einnig athuguð gæði efnis og verð.


Endurbætur á aðstöðu og búnaði:

Farið var yfir skipulag á vinnuaðstöðu, skoðaður búnaður og hjálpartæki, með það að markmiði að fyrirkomulag, búnaður og hjálpartæki væru til staðar og af þeirri gerð að hentaði til að gera framleiðsluna sem hagkvæmasta.

 

Endurbætur á vélum:

Fara yfir vélar með það að markmiði að þær væru af þeirri gerð sem þyrfti til að gera vöruna sem auðveldasta í framleiðslu og gæfu möguleika á framleiðslu á nýrri vöru eða áhugaverðum breytingum.


Námskeiðahald og kennsla:

Skoða hvaða kunnátta væri til staðar í greininni og hjá einstökum fyrirtækjum. Skoða hvaða námskeið, leiðbeiningar á vinnustað, ráðgjöf og hugbúnaður væri þörf fyrir hjá þessum aðilum, til að ná sem bestum árangri í sínum rekstri, bæði út frá afkomu og gæðum.

 

2
HVERNIG VERKIÐ VAR UNNIÐ?

Það kom strax í ljós gríðarlega mikill áhugi á þátttöku í verkefninu og reyndist hann vera allstaðar að af landinu.
Öll áhugasöm fyrirtæki voru heimsótt til öflunar upplýsinga um stöðu á framangreindum þáttum og síðan gerð áætlun um hvernig skyldi standa að uppbyggingunni.
Fyrirtækin voru á þessum tíma fá og flest lítil, en það átti eftir að breytast mikið eftir að verkefnið hófst, eins og má sjá á þeirri aukningu sem fram kemur á línuritinu „Útflutt magn“. (Línuritið nær til 14 ára, sem er 4 árum lengur en verkefni þetta stóð).


Skipulag framleiðsluhúsnæðis fyrirtækjanna var endurhannað og húsnæðið í sumum tilvikum hannað frá grunni. Hönnuð voru ný hjálpartæki þar sem það þurfti og keypt tæki og vélar þar sem það þurfti.


Komið var á eftirlits og skráningarkerfi til að fylgjast með efnis og tímanotkun við hverja framleiðslutegund. Farið var nákvæmlega ofan í efnisnýtingu og gerðar ráðstafanir til að draga sem mest úr efnisafföllum.
Byggt var upp staðaltímakerfi fyrir framleiðsluna, þannig að áætla mætti kostnað hverrar tegundar og framleiðslutíma og sett upp árangurskerfi á sumum stöðum til að halda uppi og hvetja til góðra afkasta.

Leiðbeinendur, innlendir og erlendir, fóru á milli fyrirtækjanna til að aðstoða þau við að ná sem bestum tökum á framleiðslunni og haldin voru námskeið í sama tilgangi. Einnig voru haldin námskeið fyrir stjórnendur fyrirtækjanna í þeim tilgangi að auka stjórnunarfærni þeirra.

 


HVER VAR ÁVINNINGURINN?

Ávinningurinn var ótrúlegur, en hann má t.d. lesa út úr því að útflutningur á þessum vörum fjórfaldaðist á þessum tíma. Fjöldi starfsmanna voru við lok tímabilsins 7 – 800 við þessi störf, mælt í ársverkum og hafði á tímabilinu fjölgað um u.þ.b. 500. Með afleiddum störfum má reikna með að um 1000 – 1500 störf hafi orðið til vegna þessa verkefnis.
Útflutningsverðmæti þessarar framleiðslu jókst úr 2,1 miljörðum kr. í 6-8 miljarða kr. á ári á tímabilinu, reiknað á verðlagi ársins 2017.