Fróðleikur um atvinnumál

8. febrúar 2010
VILJUM VIÐ SJÁ 20 ÞÚSUND MANNS ATVINNULAUSA Á ÍSLANDI?

1Þessa spurningu mátti lesa hér á netinu í ársbyrjun 2009, þá voru 10.000 atvinnulausir á landinu. Nú rúmu ári síðar eru atvinnulausir orðnir 17.000 samkvæmt Vinnumálastofnun og fer enn fjölgandi. Svarið í flestra huga við framangreindri spurningu er og hefur auðvitað verið nei, en til aðgerða sem spornað gætu við þróuninni var ekki gripið.Sé það haft í huga að í opinbera geiranum varð fjölgun starfa um 300 samkvæmt nýjustu fréttum, árið 2009, í stað þess að þar hefði átt að fækka störfum um 3.000 til að halda í við fækkun á almenna vinnumarkaðnum, þá má halda því fram að á þessu tímabili hafi fjöldi atvinnulausra aukist um 10.000 og hafi atvinnuleysið því náð framangreindu marki nú þegar, þ.e. 20.000 manns atvinnulausir, Laun þessa fólks greiðast jú með sköttum okkar hinna.Einnig má nefna brottflutta umfram aðflutta sem eru á árinu um 3600 (2700 jan-sept.) og sem er í raun útflutningur á atvinnuleysi, en þeir eru ekki teknir með í þessum tölum, enda erum við ekki í bili að greiða þeim atvinnuleysisbætur.Atvinnulausir kosta samfélagið mikið í beinum útgjöldum og einnig í glötuðum skatttekjum. Sé reiknað með að hver atvinnulaus kosti samfélagið 2,5 miljónir króna á ári (ónákvæm tala) og að atvinnuleysið sé 17.000 manns þá er heildarupphæðin 42,5 miljarðar á ári. Sé miðað við 20.000 manns er sú upphæð 50 miljarðar. Á þetta er bent vegna þess gríðarlega kostnaðar sem samfélagið ber vegna þessarar stöðu og nú einnig vegna þess að ekki hefur tekist að snúa þessari þróun til betri vegar. Grein okkar fyrir ári síðan var sett fram sem viðvörun um það hvert stefndi og samtímis var þar sett fram hugmynd um það hvað mætti gera til að snúa þróuninni við á sem skemmstum tíma, með sem minnstu fjármagni. Einnig að þó að aðferðin myni binda töluvert fé í nokkurn tíma þá kostuðu aðgerðirnar ekkert, þvert á móti myndu þær skila góðum hagnaði inn í samfélagið.Hér var sem sé um að ræða að ríkið legði fram pening í formi lána sem það fengi til baka á nokkrum árum á sama verðgildi a.m.k. og fengi í staðinn ákveðinn fjölda starfa hjá þeim sem ættu kost á þessari lánafyrirgreiðslu. Valdar væru greinar sem skiluðu flestum störfum og jafnframt sem bestri afkomu og eftirlit væri haft með að þetta skilaði þeim störfum sem samið væri um. Í dag birtist í fjölmiðlum frétt um það að Actavis ætlaði að fjárfesta hér á landi um 900 miljónir króna og skapa með því 50 störf í sinni lyfjaframleiðslu. Með afleiddum störfum verða þetta væntanlega 100 – 150 störf og miðað við það er fjárfestingin 6 – 9 miljónir króna á hvert starf. Þetta er nákvæmlega það sem við bentum á fyrir ári síðan.Hagnaður hins opinbera af nýjum störfum kemur fyrst og fremst fram í minni greiðslum til atvinnulausra, en einnig í auknum skattekjum hins opinbera frá þessum sömu einstaklingum og þeirra vinnuveitendum. Auk þessa mundu þeir einstaklingar sem fengju vinnuna verða eðlilegir neytendur að nýju og gætu staðið undir sínum skuldbindingum í ríkara mæli en nú og verslað vöru og þjónustu á eðlilegan hátt og stuðlað þanig að því að koma á eðlilegu ástandi í þjóðfálaginu á ný.


12. janúar 2009
VILJUM VIÐ SJÁ 20 ÞÚSUND MANNS ATVINNULAUSA Á ÍSLANDI?

Eða fjárfesta í atvinnu sem sparar miljarða og skilar miljarða hagnaði fyrir þjóðina, einstaklingana sem fá vinnuna og þá sem fá fyrirgreiðsluna.
Í febrúar árið 1993 gaf þáverandi fjármálaráðherra Friðrik Sophusson út rit sem hann kallaði Aðgerðir gegn atvinnuleysi. Þá voru landsmenn 263 þúsund og atvinnulausir 7600 sem mældist 5,3% af vinnuafli. Nú eru landsmenn 320 þúsund og um 10000 atvinnulausir og hlutfall atvinnulausra um 6,0%. Ástandið nú er semsagt svipað og var þegar fjármálaráðherrann þáverandi gaf út framangreint rit. Næstu tvö árin eftir 1993 hélst atvinnuleysið svipað, en hefur eftir það verið undir 4% markinu.

Munurinn á þessum tíma og nú, er að atvinnuleysið kemur nú mjög skyndilega vegna ofþenslu í þjóðfélaginu á undanförnum árum en var vegna stöðnunar þá, árin þar á undan. Þenslubólan sprakk nú á haustdögum og í ljós kom að við vorum komin nokkur ár fram úr okkur í framkvæmdum og að fjármálastarfsemin byggði á áhættubraski og síðan í stórkostlegu svindli nokkurra einstaklinga sem höfðu aðgang að fjármunum og ábyrgðum almennings í landinu.


Fjármálastarfsemin

Botninn datt skyndilega úr fjármálastarfseminni sl.haust, eins og allir þekkja, en nokkru fyrr úr framkvæmdunum. Vegna þess hvernig staðið var að málum í fjármálastarfseminni á síðustu árum, verður sú starfsemi ekki byggð upp á sama hátt aftur. Þetta þýðir að einungis lítill hluti þess fólks sem missti vinnuna af þeim sökum, getur vænst þess að fá samskonar vinnu í náinni framtíð. Fyrir þetta fólk þarf að huga að nýjum störfum, en margt af þessu fólki er vel menntað ungt fólk sem annars mun leita sér framtíðar erlendis. Alls voru um 6.400 starfandi við fjármálastarfsemi árið 2005 og líklega um 7.300 þegar bólan sprakk.


Framkvæmdir

2Eins og fram kemur á meðfylgjandi línuriti, þar sem fjöldi nýbyggðra íbúða er borinn saman við íbúafjölda á árabilinu 1970 til 2007, voru byggðar u.þ.b. helmingi of margar íbúðir árin 2005 til 2007. Sé tekið tillit til aðfluttra má ætla að við eigum 2-3 ára birgðir af íbúðum í landinu. Líklega eru birgðir af atvinnuhúsnæði enn meiri. Vegna þessarar stöðu og vegna mikils fjármagnskostanaðar er ekki líklegt að mikið verði byggt af íbúðar- eða atvinnuhúsnæði á næstunni, en munurinn á þessari starfsemi og fjármálastarfseminni er að hér verður áfram þörf á byggingum og því um að ræða tímabundinn samdrátt og síðan munu framkvæmdir fara af stað að nýju þ.e. þegar jafnvægi hefur náðst. Hér er því um að ræða tímabundinn vanda, en hann er stór, því að um 14.000 störf voru í greininni árið 2005 (líklega um 15.300 árið 2007). Eðlilegur fjöldi gæti verið um 10.000 störf.


Næsta framtíð án aðgerða

3
Sé gert ráð fyrir að hverju starfi fylgi önnur tvö störf, má segja að alls 60-70 þúsund störf hafi á þessum tíma byggt á þessum tveimur atvinnugreinum. Þetta er þriðjungur allra starfa í landinu. Á þessum þremur árum þ.e. 2005-2007 fjölgaði útlendingum í landinu úr 10.180 í 18.563 og eru þeir nú 21.434 samkvæmt Hagstofu Íslands. Það má gera ráð fyrir að um 18.000 þeirra hafi verið á vinnumarkaðnum þegar mest var.

Hluti af þessu fólki mun hverfa af landinu nú þegar þrengir að á vinnumarkaði og gengi íslensku krónunnar verður óhagstæðara til að yfirfæra til heimalanda viðkomandi. Hér er gert ráð fyrir að 1/3 fari til síns heima eða um 6.000 manns. Vinnumálastofnun áætlar þennan fjölda töluvert meiri, eða um 10.000 manns.

Að auki mun einhver fjöldi íslendinga fara af landi brott og má minna á að upp úr 1990 fóru tæplega 5000 manns til annarra landa vegna ástandsins þá, en þá voru útlendingar fáir hér á landi og þetta því aðallega íslendingar. Alls gætu því um 6.000 íslendingar flutt burtu af landinu nú eða alls um 12.000 útlendingar og íslendingar ef þessar forsendur ganga eftir.

Á árinu 2000 voru á vinnumarkaði hér á landi 5.620 starfsmenn sem störfuðu að fjármálaþjónustu (án tryggingastarfsemi) samkvæmt Hagstofu íslands og er líklegt að það sé nálægt því að endurspegla þörfina nú að nýju, eftir þær breytingar sem hafa orðið á fjármálastarfsemi landsins undanfarna mánuði. Þetta myndi þýða fækkun starfa um 1.500 til 2.000 manns. Þessi fækkun er líklega þegar komin fram.4

Fækkun starfa verður mest við framkvæmdir, vegna þeirrar miklu framúrkeyrslu sem þar hefur orðið. Sé gert ráð fyrir að tilbúnar íbúðir verði um 1.000 næstu árin, í stað 4.000 eins og var á árunum 2005 til 2007 og aðrar framkvæmdir í hlutfalli við það myndi það þýða fækkun á störfum um ¾ eða um 10.000 starfsmenn.

Fækkun starfa í þessum tveimur greinum væri þá um 12.000 manns auk afleiddra starfa eða alls um 36.000 störf. Þar af myndi fækkun vegna brottflutnings vera 12.000 starfsmenn og eftir stæðu um 26.000 starfsmenn hér á landi án vinnu. Þeir eru nú um 9.000, þannig að það er mikil aukning atvinnuleysis framundan, ef ekkert verður að gert.

Horfur eru á að uppbygging í álveri í Helguvík geti fækkað atvinnulausum um 2.500 – 3.000 af framangreindum fjölda ef nýjar upplýsingar iðnaðarráðherra eru réttar, sem er þá mikilvægt skref í því að draga úr atvinnuleysi í þeirri stétt sem verst verður úti þ.e. störfum við framkvæmdir. Þessi uppbygging mun standa yfir þegar búast má við mesta samdrættinum í greininni og koma þannig á réttum tíma. Störfum við framkvæmdir mun síðan smá saman fjölga að nýju eftir að þessum samdrætti lýkur og umframlager af húsnæði er að ganga út og verða alls um 7.000 – 8.000 störf í greininni þegar jafnvægi hefur verið náð.

Framkvæmdir í Helguvík með tilheyrandi uppbyggingu orkuvera geta þýtt að atvinnulausir verði um 17.000 til 19.000 í stað 26.000 til 32.000, sem yrði þá sá vandi sem takast þarf á við.


Hvernig má draga úr þessari óheillaþróun?

Þó að aðstæður nú séu allt aðrar en voru árið 1993 og vandamálið stærra, er vandamálið það sama, þ.e. atvinnuleysi með öllum þeim hörmungum sem því fylgir og væri gagnlegt fyrir þá sem geta haft áhrif á þessa stöðu að lesa fyrrnefnt rit þáverandi fjármálaráðherra “Aðgerðir gegn atvinnuleysi”. Þar voru ýmis góð áform kynnt og leiðir að þeim, þó að síðan drægist í tvö ár frá því að ritið var gefið út, þar til árangur af þeim áformum færu að sýna sig. e.t.v. vegna þess að þau hafi ekki komið til framkvæmda, þegar á reyndi ? Ef ekkert verður að gert nú mun atvinnuleysið standa í einhver ár, eins og þá og verða meira.

Það fólk sem vinnur í þeim tveimur greinum sem nefndar eru hér að framan og missir nú sína vinnu, þarf að finna sér annarskonar vinnu en það hefur haft og hluti þess þarf að mennta sig til nýrra starfa. Það á einnig við um þá sem missa vinnu sína og flokkast hér undir afleidd störf. Mikið atvinnuleysi kostar mikla peninga og er þeim peningi betur varið til að byggja upp fólk með því að gefa því kost á námi heldur en að borga því fyrir að gera ekki neitt. Sú staða veldur fólki mikilli sálarkvöl og kemst það oft ekki yfir slík tímabil það sem eftir er lífsins eins og þekkt er.

Ef við gerum ráð fyrir að hver atvinnulaus maður eða kona kosti 2 milj. kr. á ári í greiðslum til viðkomandi og ef 18.000 eru atvinnulausir er sá kostnaður um 36 miljarðar á ári.

Í morgunblaðinu frá 17.12.2008 kemur fram að Vinnumálastofnun áætli að greiðslur til atvinnulausra verði 17,5 miljarðar á árinu 2009, og gerir stofnunin þannig ráð fyrir mun minna atvinnuleysi en hér er gert.


Störf í stað innflutnings

Við aðstæður sem þessar er gjarnan gripið til hugmyndarinnar um frumkvöðla og nýjsköpun og er auðvitað gott að styðja við slíkt, og þá ekki bara á atvinnuleysistímum. Það er hins vegar þekkt að þetta er ekki árangursrík leið til að búa til störf á skömmum tíma og hvert slíkt starf kostar mikið, vegna þess að lítið hlutfall þess sem farið er af stað með, leiðir til árangurs.

Önnur leið er að horfa til starfsemi sem þegar er til staðar og efla hana. Hér má t.d. velja starfsemi sem stendur á bak við vöruinnflutning til landsins og krefst mikils vinnuframlags. Ávinningurinn er að auka atvinnu og fækka þannig atvinnulausum en einnig að auka landsframleiðsluna og draga úr gjaldeyrisnotkun. Ávinningurinn er einnig sá að hér væri líklega á ferðinni starfsemi, sem myndi skapa svipað hlutfall af afleiddum störfum og hjá þeirri starfsemi sem nú hefur tapast.

Það sem gerir þetta allt auðveldara nú en áður, er lækkun á gengi íslenskrar krónu, sem gerir ýmsa starfsemi hagkvæma sem ekki var hagkvæm áður.

Hverjir eru möguleikarnir, hvað kostar þetta og hverju gæti það skilað?

Af nógu er að taka, sem t.d. sést á því að árið 2007 voru fluttar til landsins vörur fyrir 427 miljarða króna, sem trúlega samsvarar nálega 1000 miljörðum í dag miðað við breytt gengi. Sé gert ráð fyrir að launaþáttur þessa innflutnings sé um 20%, þá stendur hann undir 60.000 störfum miðað við íslensk laun, auk afleiddra starfa.

Við gætum t.d. sett okkur eftirfarandi markmið:
1. Að mæta yfirvofandi atvinnuleysi að 1/3 í framangeindum framleiðslustörfum eða um 2.000 nýjum störfum af þessum toga (3,3% af 60 þús. störfum).
2. Að gera ráð fyrir að jafnmargir færu í nám þ.e aðrir 2.000
3. Að gera síðan ráð fyrir að 1/3 myndu finna sér önnur svipuð störf að eigin frumkvæði.
Afleidd störf myndu síðan fylgja með og yrðu þá alls til 6.000 störf miðað við framangreint markmið, liður 1. Hér er sem sé um að ræða að ná til landsins framleiðslu á mjög litlum hluta af því sem nú er framleitt erlendis og skapa með því störf fyrir mikinn fjölda manns. Ef markið væri sett hærra myndu störfin verða fleiri, í sama hlutfalli og ekki þarf stórt hlutfall til að útrýma atvinnuleysinu að fullu.


Hvernig má standa að þessu?

Finna þarf starfsemi sem munar um, skilar mörgum störfum miðað við fjárfestingu og skilar jafnframt arði. Hér má nýta að einhverju marki upplýsingar sem Hagstofa Íslands safnar og heldur utan um og þær má nota sem grunn að slíku vali, til nánari skoðunar og ákvörðunar.

Það má sem dæmi lesa í gögnum Hagstofu Íslands frá 2007 hver innflutning á lyfjum hafi þá verið og einnig hverjar nokkrar lykiltölur framleiðslu af slíkum toga hafi þá verið hér á landi:

  • Verðmæti innflutnings, CIF: 8.395,8 miljónir kr. ~ 16,0 miljarðar nú
  • Launakostnaður í greininni ca: 20-30% ~ 3,2 – 4,8 miljarðar
  • Störf alls áætluð út frá launakostnaði: ~ 800 – 1200 störf
  • Hagnaður í greininni (efnaiðnaður-2005-2007) ~ 25 – 35%
  • Fjárbinding (efnaiðnaður: eigið fé + skuldir) ~ 15 – 20 miljarðar

Sérstaklega er vakin athygli á hagnaði í greininni á þessum tíma, sem var þenslutími í íslensku þjóðfélagi og laun helmingi hærri en nú er, miðað við gengi erlendra gjaldmiðla.

Við skulum hugsa okkur að niðurstaða úr athugun yrði að hagkvæmt væri og tæknilega framkvæmanlegt að framleiða helminginn af þessum lyfjum hér á landi. Til að þetta gæti orðið þyrfti að koma til fjármagn sem yrði um 10 miljarðar ef niðurstaða athugananna yrði í samræmi við ofangreindar lykiltölur. Aðilum í greininni væri gefinn kostur á að sækja um lán í sjóð sem greiðslur úr atvinnuleysistryggingasjóði stæðu á bak við og væru skilyrðin fyrir láninu, að störfum í fyrirtækinu myndi fjölga í takt við upphæðina innan ákveðins skamms tímaramma og héldist þannig í tiltekinn tíma, ellegar væri lánið gjaldfellt. Afgreiðsla væri í takt við fjárfestingu til að ná markmiðinu og vextir lágir.

Ofangreint dæmi myndi þá líta þannig út:

  • Atvinnuleysistryggingasjóður (eða annar sjóður, stofnaður í þessum tilgangi) myndi lána 10 miljarða kr. sem t.d. yrðu til endurgreiðslu á 10 árum
  • Atvinnuleysistryggingasjóður myndi fá til baka af sínu láni 1,0 miljarð kr. á ári auk vaxta
  • Alls yrðu þessi störf 1.500, með afleiddum störfum
  • Lán á bak við hvert nýtt starf yrði þannig um 5-7 miljónir kr. • Atvinnuleysistryggingasjóður myndi spara sér 3.0 miljarða kr. á ári
  • Innflutningur myndi minnka um 8,0 miljarða kr. á ári og þar með þörfin á gjaldeyri
  • Fyrirtækin myndu hagnast um 2-3 miljarða kr. á ári og er þá gengið út frá hagnaðarprósentu áranna 2005-2007. Hagnaðurinn yrði væntanlega enn meiri vegna gengisbreytinga frá þessum tíma.

Með því að fjórfalda þessar tölur, þ.e. að finna samskonar leiðir fyrir fjórum sinnum fleiri atvinnulausa væri markmiðinu náð, þ.e. að útvega alls 6.000 manns vinnu, sem annars væru á atvinnuleysisbótum. Ef fjárbindingin væri sú sem að framan er gert ráð fyrir, þyrfti atvinnuleysistryggingasjóður að leggja fram 40 miljarða kr. í upphafi sem lán. Með því myndi hann spara sér 12,0 miljarða kr. á ári, vegna minna atvinnuleysis og vera kominn með peningana sína aftur innan fjögurra ára. Hann myndi þannig spara sér útgjöld upp á 48 miljarða í formi atvinnuleysisbóta á þessum fjórum árum, sem hann fengi annars aldrei aftur (vægt reiknað). Sjóðurinn væri þá kominn með allt sitt fé aftur og ríflega það, innan fjögurra ára og hefði engan kostnað haft af þessum 6.000 einstaklingum.

Með því að ná þessu markmiði myndi þjóðfélagið að auki spara sér 32,0 miljarða kr. á ári í gjaldeyri og fá skatttekjur af umsvifum fyrirtækjanna og fólksins sem myndi fá þar vinnu, sem gæti verið á bilinu 4-7 miljarðar kr.á ári ef rétt starfsemi væri valin til að styðja (lágmark 2 miljarðar ef enginn hagnaður yrði í rekstri fyrirtækjanna). Hagnaður ríkisins væri þannig 16 – 28 miljarðar þessi fjögur ár, sem kæmi sér væntanlega vel við að greiða af óreiðulánunum sem þjóðin þarf nú að borga.

Reynslan sýnir að mikið atvinnuleysi stendur ætíð í einhver ár, þegar það er einu sinni orðið. Ef horft er til framangreindra þátta, sérstaklega í framkvæmdum, er ekki ólíklegt að það muni taka íslenska þjóð u.þ.b. 4 ár að ná jafnvægi á ný, ef ekkert verður að gert. Við getum hins vegar haft áhrif á þessa þróun og er þessi leið sem hér er lýst, ein leið til þess.

 

Er eftir nokkru að bíða ?