Fyrir nokkrum dögum voru opnuð tilboð í lóðir í Úlfarsárdal í Reykjavík og má lesa niðurstöðu þeirra á vef Reykjavíkurborgar.
Það sem vekur athygli við þetta útboð er hversu há tilboð voru samþykkt í þessar lóðir. Umframhækkanir virðast vera á bilinu 33 – 45% í samanburði við verð framreiknað með byggingarvísitölu frá árinu 2014. Hlutfall lóðarverðs í byggingarkostnaði hækkar við þetta um 3,6 prósentustig í fjölbýlishúsum og um 5,9 prósentustig í einbýli.

Þetta vekur auðvitað sérstaka athygli þegar höfð er í huga umræðan um dýrt húsnæði og þá auðvitað um leið á því að borgin telji ástæðu til að stuðla að enn hærra verði íbúðarhúsnæðis en aðrir í byggingarbransanum.

Hannarr ehf birtir kostnaðartölur bygginga reglulega og miðar þar við lóðarverð í Úlfarsárdal (úthverfi Reykjavíkur). Vegna þessara lóðahækkana mun áætlað verð fjölbýlishúsa hækka um 4,2% og einbýlishúsa um 7,6% við næstu útgáfu þessara talna.

Lóðakostnaður fjölbýlishúsa er með þessu orðinn 16,3% af byggingarkostnaði og einbýlishúsa 22,9%.