Frá síðustu aldamótum hefur íbúum hér á landi fjölgað um 34,5% á meðan skráðum íbúðum fjölgaði um 43.65%. Fjölgun íbúða hefur þannig orðið tæplega 8000 íbúðir umfram það sem fjölgun íbúa hefur gefið tilefni til. Íbúar á íbúð eru nú í heild 2,44 en voru 2,74 um aldamótin.

Hvað segja þessar tölur okkur ?

Í byrjun árs 2020 áætluðum við að það vantaði 5-6.000 íbúðir á landinu til að uppfylla íbúðaþörfina í landinu. Síðan hafa verið byggðar um 3-4.000 íbúðir umfram áætlaða þörf, þannig að þörfin nú ætti samkvæmt því að vera um 3.000 íbúðir.
Vegna ástandsins í heiminum sem hefur leitt til komu mikils fjölda flóttafólks til landsins þarf þó að bæta við um 2.000 íbúðum aukalega á ári ef fjöldi þeirra eykst áfram jafnmikið og nú.

Okkar ráðlegging til stjórnvalda er að þau haldi sinni áætlun um byggingu á íbúðum í heild, þ.e. um 3.000 á ári en taki að auki tillit til þess flóttafólks sem talið er að muni setjast hér að til frambúðar.
Til að byrja með gæti því markmiðið verið að byggja um 5.000 íbúðir næsta ár til að mæta þörfinni og taka síðan ákvörðun um fjöldann að ári o.s.frv.

Þetta markmið passar vel við þann fjölda íbúða sem byggður var sl. tvö ár (4.392 og 4.703).

Svarið við spurningunni „Er skortur á íbúðarhúsnæði í landinu ?“ er því eins og undanfarið, já það er skortur á íbúðum í landinu.

Óásættanlegur munur á milli ára á fjölda nýbygginga í landinu

Á meðfylgjandi línuriti sjást öfgarnar í byggingarstarfseminni og hafa öfgarnar aukist til muna síðari ár. Sum árin hafa verið byggðar nokkur hundruð íbúðir á meðan á öðrum árum hefur fjöldinn verið nokkur þúsund.

Frá árinu 2019 hafa verið gerðar breytingar á opinberu skipulagi byggingarmála í landinu, sem hafa verið í samræmi við okkar tillögur m.a., um betri upplýsingaöflun og upplýsingamiðlun og um aukna miðlæga opinbera skipulagningu á málaflokknum. Vonandi verður það til þess að það dragi úr þeim miklu sveiflum sem greinin hefur búið við og býr nú við, en okkur sýnist því miður að sú stefna sem nú er unnið eftir varðandi kröfur við fjármögnun og vaxtakostnaður þeirra sem vilja kaupa sínu fyrstu íbúð muni koma í veg fyrir að það sé gerlegt. Þetta eykur því biðröðina eftir nýjum íbúðum síðar.

Þessar öfgar skapa mikið ójafnvægi í þjóðfélaginu og mikið óréttlæti gagnvart kaupendum íbúða. Þær skapa líka mikla sveiflu frá miklum fjölda starfa í byggingarstarfsemi til mjög lítillar. Nú eru mikil umsvif sem eru reyndar að minnka og ef sagan endurtekur sig þá endar það í atvinnuleysi þeirra sem starfa í greininni. Þá væri gott að geta stungið af til Noregs eins og síðast, eða einhvers lands sem hefur mikil umsvif í greininni og greiðir góð laun. Því miður eru litlar líkur á að boðið verði upp á það í þetta skipti og þá verður það verkefni almennings í landinu að standa undir framfærslu þeirra sem missa vinnuna. Starfsfólk geinarinnar er á annan tug þúsunda.

Fram hefur komið að Seðlabankinn hefur verið að hækka vexti undanfarið, langt umfram það sem aðrar þjóðir hafa gert og auka kröfur um eigið fé kaupenda við kaupin, ekki síst til að hamla byggingarframkvæmdum sem hefur þannig átt að draga úr verðbólgu í landinu. Þetta er gamalreynd aðferð stjórnenda landsins sem leitt hefur til öfgakennds samdráttar byggingarframkvæmda eins og sést á meðfylgjandi línuriti. Þörf þeirra sem eru útilokaðir þannig frá því að eignast húsnæði hverfur heldur ekki, þeir bætist bara við biðröðina

Þetta er jafnframt óréttlæti sem er þegar farið að bitna á fólki sem er skuldsett vegna þegar gerðra kaupa sinna á húsnæði á tímum lágra vaxta. Hér er verið að setja ábyrgðina á ástandinu á herðar fólks sem margt mun ekki ráða við þær, á meðan þeir sem eiga peningana þurfa ekki að taka neinn þátt í að leysa hann og geta þá yfirtekið hús þeirra á hrakvirði og grætt þannig dálítið aukalega á þeirra vandræðum.

Er ekki kominn tími á að jafna þennan ójafna leik og draga um leið úr sveiflunum ?