Kynnt hefur verið fjórða breytingin á byggingarreglugerðinni íslensku frá árinu 2012 og eru yfirlýst markmið þau sem fram koma í yfirskrift greinar þessarar. Þeir sem hafa úttalað sig um breytingarnar lýsa almennt yfir ánægju með þær.

Fyrri breytingar stuðluðu einnig að lækkun byggingarkostnaðar og vegur þar þyngst að dregnar voru til baka kröfur um mjög aukna einangrun húsa, sem hefði haft í för með sér mikinn aukakostnað sem hefði aldrei skilað sér til eigenda í lækkun á upphitunarkostnaði.

 

Hvað í breytingunum nú lækkar byggingarkostnaðinn ?

Í kynningu á breytingunum nú er bent á ýmislegt sem muni stuðla að lækkun á byggingarkostnaði svo sem að minniháttar framkvæmdir þurfi nú ekki byggingarleyfi en í staðinn skuli hönnuður tilkynna um slíkar framkvæmdir til byggingaryfirvalda, felld er brott upptalning á verksviði iðnmeistara, dregið úr stærðarkröfum bílastæða hreyfihamlaðra, aukinn sveigjaleiki varðandi loftræstingu íbúða o.fl. Ekki virðast þessi atriði vega þungt í byggingarkostnaði en hefur vafalaust engu að síður verið sjálfsagt að endurskoða.

Einnig er nefnt að dregið sé úr kröfum um breidd á göngum, svalagögnum og stigum, sem hefur vægi í byggingarkostnaði, þó að það sé ekki mikið.

 

það sem skiptir máli í þessum breytingum í þeirri viðleitni að lækka kostnaðinn eru minni stærðarkröfur til rýma.

Þarna er gerð breyting sem mun létta þeim róðurinn sem eru að fjárfesta í sinni fyrstu eign.

Við skulum samt skoða þetta lítillega. Við skulum hugsa okkur lítið fjölbýli með fjórum íbúðum. Í þannig húsi keypti höfundur þessarar lína sína fyrstu íbúð og var hún stofa, eldhús, svefnherbergi og bað (engin geymsla), nokkurn veginn eins og flestir byrja á að byggja. Ég átti engan pening, en var í ágætri vinnu og keypti því íbúðina fokhelda og kláraði hana síðan með hjálp íbúðalánasjóðs (fyrirrennara hans) laununum okkar hjóna, með eigin vinnu og með hjálp vina og ættingja.

Ekki tíðkuðust ofurvextir á þeim tíma, þannig að allt gekk upp á eðlilegum tíma.

Ef ég væri aftur orðinn ungur hvernig myndi þetta þá ganga fyrir sig ? Svarið er einfalt, það myndi ekki ganga !

Hvers vegna ekki ?

Í fyrsta lagi vegna laga og reglugerða í byggingarmálefnum. Íbúðir eru ekki seldar fokheldar, ekki einu sinni tilbúnar undir tréverk, sem var næsta skref. Byrjunarkostnaðurinn er því of mikill. Hvernig má lækka hann ? Jú t.d. með því að minnka íbúðina. Þarna er ráðherra að taka skref í þá átt og því ber að fagna.

Byggingarkostnaðurinn lækkar ekki á hvern fermeter við þetta, hann hækkar líklega vegna minni og þar með dýrari rýma. Verktakarnir fá sitt áfram, borgin græðir áfram á lóðasölu, bankarnir og lífeyrissjóðirnir græða áfram á ofurvöxtum. Enginn tapar, en lífið verður auðveldara fyrir unga fólkið.

Er samt ekki kominn tími til að borgin (sveitafélögin) og fjárfestar verði þvingaðir til að lækka byggingarkostnaðinn t.d. með lækkun á lóðagjöldum og lækkun á vöxtum, öðru vísi gera þeir það ekki, það held ég að sé fullreynt. Þær breytingar mundu vega miklu meira í lækkun á byggingarkostnaði en þessar reglugerðarbreytingar.

 

Hvað ætli mörg hundruð miljarðar hafi undanfarin ár runnið til þessara aðila frá unga fólkinu okkar og öðrum sem skulda þeim peninga ?