1.7 Gátlistar

Þessi liður inniheldur:

1. Leiðbeiningar fyrir þá liði sem koma fyrir í kaflanum
2. Gátlista aðaluppdrátta
3. Almennan gátlista séruppdrátta.
4. Gátlista burðarvirkisuppdrátta
5. Gátlista lagnauppdrátta
6. Gögn, form fyrir vistun gagna sem tilheyra þessum kafla


Fremst í þessum kafla eru leiðbeiningar sem segja til um hvaða gögn eru í kaflanum og hvernig skuli vinna með þau, ásamt tilvitnunum í lög um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012 um atriði sem snerta málefni þessa kafla sérstaklega.
Hér er að finna form til að nota við tékkun á því hvort mismunandi hönnunargögn uppfylli lög og reglugerði. Gátlistar þessir eru hugsaðir sem hjálpargögn fyrir hönnuði og hönnunarstjóra í þessari viðleitni. Einnig má nota þessa gátlista sem fylgigögn með teikningum, þar sem á þeim kemur fram hvað hafi verið athugað og standist kröfur mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar.

Gátlistarnir eru notaðir þannig að notandinn merkir er við þá liði sem athugaðir hafa verið og eru í lagi að mati hans og að auki færir hann inn athugasemdir yfir það sem hann telur að rétt sé að fram komi og ekki er gert ráð fyrir í gátlistanum. Hann undirritar síðan gátlistann og lætur hann fylgja með viðkomandi teikningum til byggingaryfirvalda.

Úr byggingarreglugerð nr 112/2012


4.2 kafli. Hönnunargögn

Gr. 4.2.1
Almennar kröfur.
Mannvirki skulu hönnuð á faglega fullnægjandi hátt í samræmi við viðurkenndar venjur, staðla og ákvæði laga og reglugerða um mannvirki og mannvirkjagerð.
Í allri framkvæmd við mannvirkjagerð skal gæta þess að nauðsynleg undirbúningsvinna, s.s. verkskipulag, fari fram áður en verk hefst. Á verktíma skal viðkomandi hönnuður og hönnunarstjóri gæta þess að allar samþykktar breytingar á hönnun séu skráðar á uppdrætti.
Hönnunargögn skulu vera á íslensku nema leyfisveitandi samþykki annað.

Gr. 4.2.2
Almennt um hönnunargögn.
Hönnunargögn bygginga og annarra mannvirkja greinast í uppdrætti og fylgiskjöl.
Uppdrættir greinast í aðaluppdrætti, séruppdrætti, hlutauppdrætti og deiliuppdrætti.
Til fylgiskjala heyra m.a. byggingarlýsingar, skráningartafla, verklýsingar, greinargerðir, ýmiss skrifleg fyrirmæli, forsendur og útreikningar þar sem gerð er nánari grein fyrir einstökum atriðum sem fram koma á uppdráttum og útfærslu þeirra í smáatriðum.
Skráningartöflu samkvæmt reglugerð um eignaskiptayfirlýsingar, útreikning hlutfallstalna o.fl. í fjöleignarhúsum, nr. 910/2000, skal skila sem fylgiskjali. Leyfisveitandi getur krafist þess að skráningartöflu og fylgiskjölum sé skilað á tölvutæku formi.
Varðveita skal eitt eintak allra samþykktra uppdrátta af mannvirkjum hjá viðkomandi leyfisveitanda. Hvert eintak skal undirritað af hönnuði og samþykkt og áritað af leyfisveitanda. Fylgiskjöl skulu einnig undirrituð af viðkomandi hönnuði og varðveitt á sama hátt.

Gr. 4.2.3
Almennt um uppdrætti.
Öllum uppdráttum skal skila, samkvæmt ákvörðum leyfisveitanda, á haldgóðum pappír eða á rafrænu formi.
Uppdrættir skulu vera skýrir og skipulega fram settir. Þannig skal frá uppdráttum á pappír gengið að þeir máist ekki við geymslu. Við gerð allra uppdrátta skal nota þau tákn sem gildandi og leiðbeinandi staðlar gera ráð fyrir.
Stærðir uppdrátta skulu vera skv. ÍST 1, þ.e. A0, A1, A2 eða A3. Efst í hægra horni skal afmarkaður 70 mm hár og 100 mm breiður reitur til áritunar fyrir byggingarfulltrúa.
Nafnreitur skal vera neðst í hægra horni uppdráttar innan ramma. Í nafnreit skal skrá heiti þess sem teiknað er, þ.e. götu og númer og annað auðkennisheiti sé það fyrir hendi, mælikvarða, númer uppdráttar og undirritunardag uppdráttar. Með undirritun hönnuðar á uppdrátt skal einnig rituð kennitala hans. Í nafnreit skal gert ráð fyrir reit fyrir undirritun hönnunarstjóra.
Breytingar á uppdrætti skal tölusetja, dagsetja og undirrita í sérstökum reit ofan nafnreits og geta með athugasemd í hverju breytingin felst. Jafnframt skal koma fram í nafnreit auðkenni sem gefur til kynna að teikningu hafi verið breytt.
Uppdrætti skal gera í mælikvörðum 1:500, 1:200, 1:100, 1:50, 1:20, 1:10, 1:5 og/eða 1:1.“