ENGIN BREYTING Á ÍBÚÐASKORTINUM

ENN ER OG VERÐUR Á NÆSTUNNI, SKORTUR Á ÍBÚÐUM

Á árinu 2018 var byrjað á byggingu 2525 íbúðum á landinu, sem er u.þ.b. það sem þarf til að halda í horfinu á landinu samkvæmt okkar mati hjá Hannarr ehf., í venjulegu árferði. Þetta eru 311 íbúðum færri íbúðir en árið á undan.  Lokið var við 2303 íbúðir sem er 535 fleiri en árið á undan.

Fyrir þremur árum kynnti Hannarr ehf. þá niðurstöðu sína að þá vantaði um 4.000 íbúðir á landinu. Enn jókst skorturinn og var á síðasta ári orðinn meira en 6.000 íbúðir. Mat okkar hjá Hannarr ehf er að árleg þörf fyrir nýjar íbúðir á landinu séu um 2300 á ári. Fullgerðar íbúðir náðu ekki þeim fjölda fyrr en á árinu 2018 allt frá árinu 2008, þannig að skorturinn er óbreyttur þ.e. 6000 íbúðir. Ekki eru horfur á breytingu á því á þessu eða næsta ári þar sem munur á fjölda íbúða í byggingu er svipaður bæði árin 2017 og 2018 eða 4323 og 4545.

Árið 1994 voru íbúðir á landinu 96.892 og árið 2018 voru þær 140.600, samkvæmt Þjóðskrá. Hlutfall íbúða á höfuðborgarsvæðinu af heildarfjölda íbúða á landinu hefur verið nánast óbreytt frá síðustu aldamótum ca. 62%. Hlutfallið í Reykjavík hefur hins vegar lækkað á sama tíma. Hallaði á borgina um 5.000 íbúðir á síðasta ári sem hefði dugðað til að mæta uppsafnaðri þörf þá á landinu, eða hátt í það.

Þekkt er að skortur veldur verðhækkun. Reykjavíkurborg hefur í mörg ár látið bjóða í þann takmarkaða fjölda lóða sem hún hefur til úthlutunar og með litlu lóðarframboði fær hún hátt verð fyrir lóðirnar. Með litlu framboði af lóðum og þéttingu byggðar úr hófi stuðlar borgin á þann hátt að háu fasteignaverði í borginni. Fasteignaverðið í Reykjavík er með þessu að hrekja það fólk úr borginni sem vill eignast íbúð til sveirafélaga utan höfuðborgarsvæðisins þar sem boðið er upp á lægri lóðagjöld. Þetta hefur auðvitað í för með sér mikla umferð til og frá höfuðborgarsvæðinu sem þýðir að þetta fólk þarf að lengja vinnudag sinn um 1-2 klst með setu í bílum sínum og með tilheyrandi mengun og sliti á gatnakefinu á leið til borgarainnar. Þetta er örugglega ekki þeim til ánægju sem þurfa að keyra.

Reykjavíkurborg ber þannig ábyrgð á þessum fólksflótta með lóðaskorti og háu lóðaverði. Þar af leiðandi einnig á óþarfri umferð með álagi á gatnakerfi kringum borgina og mengun sem henni fylgir.

 

HÆTTUM AÐ SAFNA ÓNÁKVÆMUM UPPLÝSINGUM OG GERA RANGAR SPÁR

Þessa dagana voru að koma fram áður nefndar tölur um það hversu mikið var byggt af íbúðarhúsnæði árið 2018. Þetta er seinna en á síðasta ári, sem var seinna en árið þar á undan. Þeir sem stjórna þessum málaflokki og fjalla um hann hljóta að þurfa á því að halda að hafa aðgang að slíkum upplýsingum jafnóðum, t.d. mánaðarlega, sem ætti ekki að vera erfitt á tímum þeirrar tækni sem við lifum nú á.

Íbúðarbyggingar er ein stærsta og mannfrekasta atvinnugrein landsins og ein sú mikilvægusta í afkomu hvers íslendings. Hún er nú að auki um stundir hluti af samningum vinnumarkaðrins og hins opinbera, eins og áður hefur verið á tímabilum. Að láta hana vera á sjálfstýringu mánuðum saman, sérstaklega á slíkum tímum getur varla talist góð stjónsýsla. Ætla aðilar vinnumarkaðarins kannske að skoða útkomu ársins 2019 þann 20 apríl árið 2020, til að sjá hvernig staðið er að samkomulagi þeirra við hið opinbera ?

Skoðun á útgefnum tölum nú gefur tilefni til að tortyggja þær tölur, því miður og sýna þær að líklega er skortur íbúða meiri en þær sýna. Ef bornar eru saman útgefnar tölur yfir fullgerðar íbúðir frá aldamótum og þeim íbúðum sem byrjað var á, þá segja þær að fullgerðar íbúðir séu 2428 færri en þær sem byrjað var á (Hagstofa Íslands). Séu bornar saman tölur yfir fullfrágengnar íbúðir og breytingar á heildarfjölda íbúða á landinu, þá er munurinn 2.341 fleiri íbúðir samkvæmt heildarfjöldanum (Hagstofa Íslands og Þjóðskrá).

Engar tölur er að finna yfir íbúðir sem rifnar hafa verið eða teknar undir aðra starfsemi, sem hefði átt að sýna fleiri íbúðir fullbúnar, en ekki öfugt. Sá fjöldi hefur án efa verið umtalsverður t.d. í Reykjavík, eða a.m.k. nokkur hundruð á ári vegna þéttingar byggðar þar.

Í nýlegri samantekt Íbúðalánasjóðs (2018/2019) má lesa að 5.300 íbúðir séu þá í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og 6.600 íbúðir alls á kjarna- og vaxtasvæðum. Tölurnar séu byggðar á upplýsingum frá SSH og SI aðallega. Þessar tölur passa illa við áður nefndar tölur eins og sést hér á undan og munar þar einhverjum þúsundum. Spurningin er í hvaða tilgangi slíkar tölur eru birtar, þar sem greinilega er lítið á þeim að byggja. Skýringin er líklega áður nefndur seinagangur í söfnun og birtingu upplýsinga og því ekki nefndum aðilum um að kenna. Þetta undirstrikar hins vegar brýna þörf á endurskoðun á öflun upplýsinganna og birtingu þeirra

Einnig má benda á að algengt hefur verið að lesa um hár tölur yfir íbúðir í byggingu sem Reykjavíkurborg hefur birt undanfarin ár, en lítið hefur bólað á.

Hættum að safna röngum upplýsingum og búa til rangar spár (hver sem tilgangur þess er), hver í sínu horni og af vangetu vegna fyrirkomulagsins, eða í einhverjum ónefndum tilgangi.

Brettum upp ermar og komum þessum málum í lag sem fyrst. Fyrr verða byggingarmálefni landsins ekki í lagi, sem er alltof sársaukafullt fyrir marga einstaklinga og alltof dýrt fyrir þjóðina í heild.

Það verður vafalaust ekki gert nema að færa ábyrgðina til eins aðila, sem hefði yfirumsjón með og bæri ábyrgð á öflun upplýsinganna og birtingu þeirra.