Fyrir tveimur árum birtum við á þessum stað, yfirlit yfir fjölda íbúðabygginga sem byrjað var á samkvæmt samantekt Hagstofu Íslands og settum við þar fram hugleiðingar um hvernig þróunin yrði næstu árin. Þar kom fram að miðað við langtímaþróun í fjölda nýrra íbúða, væri þörf fyrir rúmar tvö þúsund nýjar íbúðir á ári á landinu öllu. Þróunin undanfarin þrjú ár hefur í engu breytt þessari niðurstöðu, en hún sýnir hins vegar að sá lager af nýjum íbúðum sem myndaðist á árabilinu 2005 til 2007 er líklega horfinn, sem sést einnig á þeirri þörf sem orðin er á fleirum leiguíbúðum. Ástæðan fyrir þessu er sú að síðustu fjögur ár hefur byggingarmagn, mælt í nýjum íbúðum sem byrjað hefur verið á, eingöngu verið um 10% af framangreindri þörf.

Vísbendingar komu fram á síðasta ári um að nýbyggingum væri farið að fjölga, en þá var byrjað á um 20% af framangreindri árlegri þörf íbúðabygginga. Enn er því langt í land að byggðar séu hæfilega margar íbúðir í landinu og er þörfin vaxandi fyrir nýjar íbúðir.

Þegar því er náð þá mun árleg velta í þjóðfélaginu aukast um 100-150 miljarða króna og fjögur til fimm þúsund manns fá vinnu við að byggja þessar íbúðir auk afleiddra starfa.
Jákvæð áhrif af því munu því verða mikil bæði á hag landsmanna og í að vinna á atvinnuleysi í atvinnugreininni og í landinu öllu.

 

Þetta mun gerast þegar búið er að létta á skuldum heimila landsmanna og bankar og fjármálastofnanir hafa að nýju tekið að lána til íbúðabygginga.