Fyrir tveimur árum birtum við á þessum stað, yfirlit yfir fjölda íbúðabygginga sem byrjað var á samkvæmt samantekt Hagstofu Íslands og settum þar fram hugleiðingar um hvernig þróunin yrði næstu árin. Þar kom fram að miðað við langtímaþróun í fjölda nýrra íbúða, væri þörf fyrir rúmar tvö þúsund nýjar íbúðir á ári á landinu öllu.
Þróunin undanfarin tvö ár hefur í engu breytt þessari niðurstöðu, en hún sýnir hins vegar að sá lager af nýjum íbúðum sem myndaðist á árabilinu 2005 til 2007 verður líklega horfinn áður en þessu ári lýkur. Ástæðan fyrir þessu er sú að síðustu þrjú ár hefur byggingarmagn, mælt í nýjum íbúðum sem byrjað hefur verið á, eingöngu verið 10% af framangreindri þörf.

 

Hvað þýðir þetta ?

Benda má á tvennt. Annars vegar á það að árleg velta í þjóðfélaginu mun aukast um 100-150 miljarða króna og hins vegar á að fjögur til fimm þúsund manns þarf til að byggja þessar íbúðir auk afleiddra starfa, sem er líklega annar eins fjöldi eða meira. Áhrifin af þessari auknu starfsemi munu verða mikil, svo sem jákvæð áhrif á hag landsmanna og minna atvinnuleysi í atvinnugreininni og í landinu öllu. Önnur áhrif munu t.d. verða hækkandi verð á fasteignum, hækkun launa í greininni, aukin verðbólga, mikil aukning á lánsfjárþörf svo sem hjá Íbúðalánasjóði o.s.frv.

 

Erum við viðbúin ?

Ástæða er til að hvetja alla landsmenn til að vera viðbúna þeirri sprengingu sem líklega verður þessu fylgjandi. Spyrja má t.d.

 

– Er greinin búin undir aukninguna, munu íslendsku iðnaðarmennirnir koma til baka frá Noregi, munum við sjá Pólverjana hér aftur eða aðra erlenda iðnaðarmenn ?
– Er Seðlabankinn viðbúinn því að verðbólguþrýstingur muni aukast ?
– Er Íbúðalánasjóður viðbúinn aukinni þörf á lánsfé (og bankar) ?
– Er Mannvirkjastofnun viðbúin auknu álagi ?
– Hafa pólitíkusar landsins gert sér grein fyrir áhrifum þessarar auknu starfsemi og gert nauðsynlegar ráðstafanir.

 

Líklega eru sveitafélög tilbúin með lóðir fyrir þessar auknu framkvæmdir næstu árin, en eru þau að öðru leyti viðbúin aukningu á starfseminni ?