Mjög áhugavert mál hefur að undanförnu verið í umræðunni sem snertir húsnæðismál á landinu og vonandi leiðir sú umræða til góðrar lausnar á því sem þar er verið að fjalla um.

 

Þessi staða hefði ekki átti að koma á óvart, þörfin er þekkt og byggingarmagn hvers tíma er þekkt, sjá t.d. greinar hér á síðum Hannarrs frá síðasta ári og árinu á undan.

 

Ástæðan fyrir þeim skorti á íbúðum sem nú er fjallað um, er að byggt var of mikið á „bólgutímanum“ í landinu sem leiddi til offramboðs húsnæðis með tilheyrandi verðfalli, auk samdráttar í eftirspurn vegna hins margnefnda „hruns“. Afleiðingarnar voru að ekki var byggt nema ca. 10% af þeirri þörf sem er að meðaltali árin eftir hrun og fjöldi byggingaraðila varð gjaldþrota og margir iðnaðarmenn fóru úr landi. Á árabilinu 2011-2012 var lager af íbúðarhúsnæði uppurinn að okkar mati, en ekki var þó vart aukningar á byggingarmagni íbúðarhúsnæðis þá að neinu marki og er ekki enn. Nú er því orðinn skortur á íbúðarhúsnæði.

 

Hver er ástæðan fyrir þessu ?

Með það í huga að bundið fé í meðalíbúð gæti verið um 25 milj. kr. þá gæti ávöxtunarkrafa þeirrar upphæðar hljóðað upp á um 2 milj. kr. hjá íslenskum lánveitendum á ári. Ætli megi ekki gera ráð fyrir að helmingur þess sé til að mæta raunhækkun (verðbólgunni). Og er þá raunkostnaður þess sem á húsnæðið yfir 80.000 kr á mánuði til að standa undir gróða fjármagnseigandans. Hér er t.d. um að ræða ca. helming húsaleigu þeirra sem leigja slíkt húsnæði. Athugið að hér er ekki verið að tala um rekstur húsnæðisins, gjöld til hins opinbera eða viðhald, það kemur allt til viðbótar.

 

Væri ekki verðugt verkefni að byrja á því að taka á fjármálakerfinu með það að markmiði að koma fjármagnskostnaði í eðlilegt hlutfall af kostnaði af byggingarframkvæmdum og rekstri bygginga, þ.e. í svipað hlutfall og tíðkast í nágrannalöndunum. Markmiðið gæti t.d verið í byrjun að lækka raunvexti um helming, sem myndi spara ca. 40.000 kr á mánuði fyrir leigjanda ofangreindrar íbúðar. Að auki mætti minnka kröfur í byggingarreglugerð, lækka lóðarverð o.fl. og lækka þannig byggingarkostnaðinn fyrir alla landsmenn, ekki bara suma þeirra á kostnað annarra.