Aðstoð við kaup á fyrstu íbúð.

Árið 2016 birti ég grein þar sem ég lagði fram hugmynd um hvernig mætti leysa þann vanda sem ungt fólk stóð þá frammi fyrir við kaup á sinni fyrstu íbúð og það stendur frammi fyrir enn. Eins og nú gat unga fólkið okkar sem ekki átti efnaða foreldra ekki tekið þetta skref og var því ýmist búandi í foreldrahúsum eða var farið úr landi.

Minnt er á þá skyldu okkar sem byggjum landið að sjá til þess að allir þegnar þess hafi húsnæði til að búa í og mikilvægi þess fyrir þjóðfélag okkar að halda í sitt unga fólk, sem m.a. mun standa undir velferð þegna landsins í framtíðinni.

 

Hugmyndin sem lögð var fram árið 2016:

 

Fjárfestum í fyrstu íbúðinni með unga fólkinu okkar.

Hugmyndin byggðist á að leggja fram peninga úr sameiginlegum sjóðum okkar gegn því að eignast samsvarandi hlut í íbúðunum til skemmri tíma. Nefndar voru 6 milj. kr. sem samsvarar um 8 milj. kr. nú.

Á íbúðunum væri kvöð um að rekstur þeirra og viðhald væri að fullu á vegum kaupandans og hann myndi kaupa hluturinn innan tíu ára eða selja íbúðina ella. Á upphæðina væru reiknaðir hóflegir vextir, sem þá væru gerðir upp, t.d. vextir samsvarandi verðbólgumarkmiðum Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Ef íbúðin væri seld innan þess tíma þá væri upphæðin gerð upp á sömu forsendum.

Þetta er fjárfesting, ekki gjöf.

Málið væri einfalt þannig að ekki þyrfti að stofna til sérstakrar stofnunar vegna þessa með tilheyrandi kostnaði. Íbúðalánasjóður ætti t.d. auðveldlega að getað séð um málið, enda málið skylt því sem sjóðurinn væri að fást við.   Hann myndi einnig gæta hagsmuna okkar sameiginlega sjóðs við þessi viðskipti og þar með að gæta þess að kaupverð viðkomandi eigna sé rétt og eðlilegt í hverju tilviki og að sala á eignahlutnum og uppgjör færi fram í samræmi við kvöðina.  

 

Nýtt frumvarp um hlutdeildarlán í sama tilgangi:

 

Það er ánægjulegt að sjá að fram sé komið frumvarp sem byggist í grunninn á framangreindri hugmynd. En ekki eins ánægjulegt að sjá alla þá fyrirvara og skilyrði sem uppfylla þarf samkvæmt frumvarpinu. Fyrirvarar þessir og skilyrði munu koma í veg fyrir að megnið af þeim sem þurfa á aðtoðinni að halda eigi möguleika á því að uppfylla þá/þau öll og muni því enga aðstoð fá.

Mér telst til að til að hugsanlegir umsækjendur um hlutdeildarlán samkvæmt frumvarpinu þurfi að uppfylla um eða yfir 30 skilyrði og mörg af þeim komi í veg fyrir að venjulegur umsækjandi geti uppfyllt þau öll.

Hér virðist forræðishyggjan hafa náð tökum á höfundum frumvarpsiins og þeir náð að safna saman öllum þeim fyrirvörum sem þeim gat hugsanlega dottið í hug og úr hefur orðið þessi samsetningur fyrirvara og krafna, þar sem leitað hafi verið að þeim smugum sem hugsanlegur umsækjandi gæti sloppið í gegnum og girt fyrir þær.

Helst dettur mér í hug þegar ég les kynninguna á frumvarpinu að verið sé að búa til verkefni fyrir það starfsfólk sem á að tékka af öll þessi rúmlega 30 atriði sem upp eru talin í kynningu fjölmiðla á frumvarpinu. Hvað ætli það muni kosta og hvað ætli það muni kosta deilt niður á þá fáu sem sleppa í gegnum frumskóginn. Og hvað ætli mikill tími umsækjanda fari í að finna út úr og uppfylla kröfurnar.

Var það kannske markmiðið með frumvarpinu strax í upphafi ?

Ég ætla ekki að telja hér upp þessi 30 atriði, en vísa til umfjöllunar fjölmiðla. Ég skal þó nefna dæmi um þau:

  • Horft skal til nýsköpunar í mannvirkjagerð
  • Bara má lána til nýbygginga
  • Aðeins sé lánað til íbúðar sem er miðuð við fjölskyldustærð umsækjanda
  • Eigi umsækjandi meira eiginfé en 5% af kaupverði þá lækkar lánið sem því nemur
  • Fasteignalán á undan hlutdeildarláni má ekki vera til lengri tíma en 25 ára
  • Umsækjanda óheimilt að endurfjármagna fasteignalánið nema greiða hlutdeildarlánið upp.
  • Vextir greiðist af hlutdeildarláni ef tekjur lántaka verða hærri en viðmiðin, þrjú ár í röð.

Þetta eru 7 sýnishorn af ca. 30 sem umsækjandi þarf að uppfylla til að fá stuðning samkvæmt frumvarpinu og sem koma munu í veg fyrir að góð hugmynd komist til framkvæmda og geri það gagn sem að er stefnt. Þetta er einnig sýnishorn af því hvernig einföld og góð hugmynd sé gerð það flókin að hún muni eingöngu gagnast það fáum að vandamálið muni verða áfram óbreytt og óleyst, eða sem næst því. 

Þá er bara að búa til nýja nefnd sem skila mun tillögum eftir næstu fjögur ár til að leysa það vandamál, eða hvað ?

Ítrekað er hér að hugmyndin er í báðum tilvikum að hið opinbera fjárfesti í húsnæðinu með kaupandanum og fær sitt fé til baka þegar það hefur gert sitt gagn. Hér er því um raunverulega aðstoð að ræða sem mun auðvelda unga fólkinu okkar að vera áfram íslendingar nú og til frambúðar. Sleppið öllum þessum gildrum og hindrunum sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir og byggið aðstoðina á fáum skilyrðum og gerið lán þessi aðgengileg fyrir sem næst alla sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Þeir sem ekki þurfa á því að halda munu tæplega verða margir í hópi umsækjenda og skaðinn enginn þó að einhverjir slæðist með.