Eigum við að horfa á eftir unga fólkinu okkar úr landi eða bjóða því framtíð á Íslandi ?

Við erum nú að upplifa hér á landi eina mestu eignatilfærslu sem núlifandi Íslendingar hafa upplifað. Vandamálið birtist m.a. í því að unga fólkið okkar, eða stór hluti þess, hefur ekki efni á að reka húsnæði til að búa í, hvorki eigið húsnæði eða leigt.
Talað er um þetta vandamál og nefndar hugsanlegar ástæður, en þeir sem helst eru kallaðir til sem álitsgjafar, forðast að nefna aðalástæðuna, enda eru það þeir sömu sem hagnast mest á eignatilfærslunni.

 

Ástæðan er ekki sú að það sé dýrt að byggja á Íslandi

Álitsgjafarnir benda á auknar kröfur í byggingarreglugerð og hækkandi lóðarverð sem sökudólginn. Þetta er hvorutveggja rétt, en hefur þó ekki enn það mikil áhrif að byggingarkostnaður sé hár á Íslandi í samanburði við önnur nálæg lönd.

Ástæðan er áðurnefnd eignatilfærsla frá þessu unga fólki í formi fjármagnskostnaðar eftir að það hefur keypt sér húsnæði, þ.e. í formi vaxta og verðbóta. Þessi kostnaður (án afborgana) er á bilinu 2,5 til 3,5 miljónir á ári, eða 210 til 300 þúsund krónur á mánuði, ef lán er 30 miljónir króna. Til samanburðar hafa komið fram tölur frá nágrannalöndum okkar sem hljóða upp á 0,75 til 1,0 miljón króna á ári af láni af sömu upphæð, eða 65 til 85 þúsund krónum í mánaðarlegan kostnað. Árlegur mismunur er á bilinu 1,5 – 2,5 miljónir króna á ári.

Það þarf ekki mikinn speking til að draga þá ályktun að þetta sé aðalástæðan fyrir því að allt of fáar íbúðir eru byggðar nú, þrátt fyrir uppsveiflu í þjóðfélaginu.
Bygging íbúðarhúsa á landinu 1970 - 2014 - fjöldi

 

Allt of lítið byggt af íbúðum.

Árið 1970 var byrjað á um 1500 íbúðum á landinu, en þá voru íbúar landsins 204 þúsund (Tölur Hagstofu Íslands). Sama hlutfall á milli íbúða og íbúa myndi segja að byrja þyrfti á rúmega 2400 íbúðum árlega í dag. Í raun hefur verið byrjað á rúmlega 400 íbúðum að meðaltali á ári síðustu sex árin (2009 til 2014). Munur á þessu er 2000 íbúðir árlega eða um 12.000 íbúðir alls.
Líklega hafa verið til 7-8.000 íbúðir á lager á ársbyrjun 2009, eftir bóluna þar á undan, þannig að skortur á nýjum íbúðum var líkleg á bilinu 4 til 5.000 í ársbyrjun 2015. Sé fjöldi íbúða skoðaður sem lokið var við er talan svipuð í heild, en minni toppar þegar mest hefur verið.

 

Af hverju stjórna stjórnvöld ekki fjármagni á Íslandi ?

Við heyrum það og lesum um það að stjórnvöld hinna ýmsu landa stjórni fjármálum þjóða sinna og að þau séu meðal annars kosin til þess. Fjármagn er aukið og minnkað í umferð og fjármagnskostnaður aukinn og minnkaður til að halda jafvægi í þjóðarbúskapnum og halda uppi velferð þegnanna og hvergi er að finna slíkt okur á fjármagnskostnaði til húsbygginga og á Íslandi.

Er ástæðan sú að það eru útlendir vogunarsjóðir annarsvegar og Seðlabanki Íslands hins vegar sem ákveða fjármagnskostnaðinn ?
Vogunarsjóðirnir eiga jú tvo af bönkunum í landinu og ríkið einn ásamt íbúðalánasjóði. Hið opinbera leggur síðan til peninga í þessa hringekju í formi vaxta- og leigubóta sem að lokum gengur til vogunarsjóðanna í gegnum háan fjármagnskostnað eigenda (og kemur einnig fram í hárri leigu) sem eykur enn á hagnað vogunarsjóðanna.

Á Íslandi virðist stjórnun peningamála ekki vera í höndum stjórnmálamanna (það reyndist e.t.v. ekki heldur vel), sú stjórnun er í höndum áðurnefndra fjármagnseigenda annars vegar og Seðlabanka Íslands hins vegar (sem hvorutveggja er greinilega enn verra).

Fjármagnseigendurnir/bankarnir vita af langri reynslu í samskiptum við hið opinbera, að þeir geta „skattlagt“ viðskiptavini sína án þess að hið opinbera skipti sér af því og einnig vita þeir að húsbyggjandinn getur ekki hlaupið út í banka og borgað upp lánið sitt, þó að vextir verði óviðráðanlegir. Honum er fórnað.
Að vísu fækkar þeim sem geta tekið lán með þessum aðferðum, en hvað gerir það til, fjármagnseigendurnir eru búnir að fá það sem þeir geta pínt út úr viðskiptavinunum og verða þá farnir af landi brott með það fé sem þeir hafa sogað til sín á þennan hátt og þurfa ekki á þeim að halda eftir það.

Stjórnendur Seðlabankans virðast sjá málið á svipaðan hátt. Þeir virðast ekki sjá afleiðingar ákvarðana sinna fyrir það fólk sem þeir hrekja úr landi með ákvörðunum sínum og sjá ekki hvernig þjóðfélagið verður eftir að þetta fólk er ekki lengur í landinu.

Útkoman er að unga fólkið okkar, þ.e. það fólk sem þarf á húsnæði að halda er „skattlagt“ sérstaklega á þennan hátt og gert þannig ókleyft að koma sér þaki yfir höfuðið. Íbúðaskortur er þegar orðinn af þessum sökum og fer vaxandi.  Þetta unga fólk mun væntanlega ekki sætta sig við ástandið og flytja af landi brott þar sem auðveldara er að útvega sér húsnæði eða finna aðrar leiðir.

Kannske sér þetta unga fólk von í Pírötunum ?

Er ekki kominn tími til fyrir stjórnvöld að þau taki að sér að stjórna fjármálum þjóðarinnar ?