Á árunum 2005 til 2007 voru byggðar helmingi of margar íbúðir á landinu eins og fram kemur á meðfylgjandi línuriti, þar sem fjöldi nýbyggðra íbúða er
borinn saman við íbúafjölda á þessu árabili. Árið 2008 voru enn byggðar fleiri íbúðir en meðaltalsþörfin sagði til um þó að munurinn væri minni. Árið 2009 snerist þetta hins vegar við og voru þá fullgerðar íbúðir einungis um 10% af meðaltalsþörf nýrra íbúða. Samkvæmt þessu hefur sá lager sem varð til á árunum 2005 til 2008 minnkað sem svarar til eins árs þarfar fyrir nýjar íbúðir og er lagerinn nú líklega til 1-2 ára.
Vegna þessarar stöðu er ekki líklegt að mikið verði byggt af íbúðarhúsnæði á næstu 1 til 2 árum.
Þó að við höfum farið fram úr okkur nú um stundir, verður áfram þörf á nýbyggingum á Íslandi. Framkvæmdir munu því fara af stað að nýju þegar jafnvægi hefur náðst í framboði og eftirspurn, sem verður trúlega að þessum tíma liðnum.