VIÐHALDSKERFI FASTEIGNA – NÝ UPPFÆRSLA

Viðhaldskerfið er öflugt tölvukerfi á netinu, gert fyrir þá sem koma að viðhaldi húsa á einhvern hátt. Um getur t.d. verið að ræða umsjónarmann fasteigna sveitarfélags, fasteignafélags eða leigufélags.

Kerfið er heildarkerfi sem gerir notandanum tillögu að viðhaldi hússins sem hann er að vinna með og sem hann aðlagar að húsinu.

Í hverjum kafla kerfisins eru leiðbeiningar um það hvernig skuli vinna með þá þætti sem eru í kaflanum og hvar og hvernig þeir eru vistaðir.

Vegna þess að kerfið er á netinu getur notandinn hvenær sem er og hvar sem hann er staddur, flett upp á verkinu og útfært þar það sem að honum snýr.

Kerfið nær til allra þátta venjulegs viðhalds og ekki þarf annað kerfi til að halda utan um gögn viðhaldsins. Þar eru form, eyðublöð og handbækur og þar eru færðar fundargerðir og dagbækur o.s.frv. Markmiðið er að kerfið spari mönnum vinnu og kostnað og svari spurningum þeirra um viðhaldskostnað hússins til lengri og skemmri tíma, á réttu verðlagi hvers tíma.

Með Viðhaldskerfinu er tryggt að ætíð sé unnið með rétt gögn og að allir vinni með sömu gögnin og ekki þurfi að geyma nein gögn í möppum upp í hillum.

 

UPPBYGGING KERFISINS

Viðhaldskerfið inniheldur þrettán kafla og hver þeirra þrjá til sex undirkafla. Notandi getur veitt völdum aðilum aðgang að kerfinu og ákveðið þá hvort þeir hafi fullan aðgang eða lesaðgang.

Viðhaldskerfið leiðir notandann í gegnum ferlið, skref fyrir skref og lætur hann vita hvað hann þarf að hafa í huga og hvað hann eigi að gera á þeim stað þar sem hann er staddur í kerfinu hverju sinni. Leiðbeiningar þessar eru í öllum köflum kerfisins

Í Viðhaldskerfinu má vinna með gögn af mismunandi gerðum, færa inn texta, myndir, PDF skjöl og önnur tölvutæk gögn. Þannig getur notandinn unnið með og vistað gögn sem unnin eru í Viðhaldskerfinu sjálfu og jafnframt notað utanaðkomandi gögn og vistað þau í Viðhaldskerfinu.

Sem dæmi um vinnslu í viðhaldskerfinu má nefna langtímaviðhaldsáætlanir til allt að 80 ára frá því að húsið er tekið í notkun sem sýnir áætlað viðhald hvers árs. Ársáætlanir sem eru byggðar á þessum langtímaáætlunum og eru unnar nákvæmar eftir þörfum og stakar viðhaldsáætlanir sem eru unnar út frá ástandsskoðun fasteignarinnar.

Sem dæmi um form í Viðhaldskerfinu má nefna form fyrir skráningu upplýsinga um áður unnin viðhaldsverk og sem dæmi um eyðublöð má nefna gátlista til að skrá ástand hússins við ástandsskoðun, bæði utan- og innanhúss, form fyrir skráningu fundargerða, dagbóka oþh. 2

Auk þeirra þátta sem koma fram í köflum kerfisins, inniheldur Viðhaldskerfið hjálparsíður kerfisins til stillinga í kerfinu svo sem til að setja inn lógó notandans, opna fyrir aðgang hans og annarra að kerfinu og raða verkum á verkefnasstjóra o.fl.

 

VIÐHALD ALLRA FASTEIGNA SKRÁÐRA Í VIÐHALDSKERFINU

Í Viðhaldskerfið eru skráðar allar þær fasteignir sem umsjónarmaður viðhaldsmálanna sér um og þar er fylgst með heildarviðhaldi þeirra allra.

Hver fasteign sem þar er skráð fær þar sína sjálfstæðu skráningu, langtímaviðhaldsáætlun, ársáætlanir og aðrar stakar viðhaldsáætlanir. Þessum upplýsingum safnar kerfið saman í yfirlit þannig að sá sem á og rekur margar eignir fær sjálfkrafa yfirlit yfir árlegt viðhald hvers þeirra og þeirra allra næstu 20 árin.

 

ÁVINNINGURINN 

Einfalt að vinna með. Sjálfvirk tillaga að viðhaldsáætlun. 

Mikill vinnusparnaður. Tillagan aðlöguð að húsinu og gildir síðan 80 ár.  Með tillögunni aukast líkurnar á að ekkert gleymist. 

Rétt viðhaldsáætlun. Byggir á reynslutölum um viðhaldþætti, magn þeirra og líftíma og einingarverðum í byggingarverðskrá Hannarrs. 

Réttur kostnaður á hverjum tíma. Áætlunin má uppfæra hvenær sem er til verðlags þess tíma. 

Rétt viðhald bygginga. Staðlaður líftími byggingaþátta kemur í veg fyrir ótímabært viðhald, en tryggir jafnframt að viðhaldi sé sinnt eðlilega. 

Notandinn tekur viðhaldsákvaraðanir. Öllum áður nefndum viðhaldsþáttunum, magni, verði og líftíma getur notandinn breytt telji hann ástæðu til þess. 

Kemur í veg fyrir tjón vegna viðhaldsmistaka. Föst regla á ástandsskoðun og mati á viðhaldsþörf kemur í veg fyrir tjón vegna skorts á viðhaldi, rakaskemmdum og sveppamyndun. 

Eftirlit með tíðni og kostnaði viðhalds. Upplýsingar um áður framkvæmt viðhald hússins er vistað í Húsbókinni, hvað var gert og hvenær og hvað það kostaði, hvaða efni var notað, hver vann verkið og hvernig verktakinn stóð sig o.s.frv.

HVERNIG EYÐILEGGJA MÁ GÓÐA HUGMYND

Aðstoð við kaup á fyrstu íbúð.

Árið 2016 birti ég grein þar sem ég lagði fram hugmynd um hvernig mætti leysa þann vanda sem ungt fólk stóð þá frammi fyrir við kaup á sinni fyrstu íbúð og það stendur frammi fyrir enn. Eins og nú gat unga fólkið okkar sem ekki átti efnaða foreldra ekki tekið þetta skref og var því ýmist búandi í foreldrahúsum eða var farið úr landi.

Minnt er á þá skyldu okkar sem byggjum landið að sjá til þess að allir þegnar þess hafi húsnæði til að búa í og mikilvægi þess fyrir þjóðfélag okkar að halda í sitt unga fólk, sem m.a. mun standa undir velferð þegna landsins í framtíðinni.

 

Hugmyndin sem lögð var fram árið 2016:

 

Fjárfestum í fyrstu íbúðinni með unga fólkinu okkar.

Hugmyndin byggðist á að leggja fram peninga úr sameiginlegum sjóðum okkar gegn því að eignast samsvarandi hlut í íbúðunum til skemmri tíma. Nefndar voru 6 milj. kr. sem samsvarar um 8 milj. kr. nú.

Á íbúðunum væri kvöð um að rekstur þeirra og viðhald væri að fullu á vegum kaupandans og hann myndi kaupa hluturinn innan tíu ára eða selja íbúðina ella. Á upphæðina væru reiknaðir hóflegir vextir, sem þá væru gerðir upp, t.d. vextir samsvarandi verðbólgumarkmiðum Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Ef íbúðin væri seld innan þess tíma þá væri upphæðin gerð upp á sömu forsendum.

Þetta er fjárfesting, ekki gjöf.

Málið væri einfalt þannig að ekki þyrfti að stofna til sérstakrar stofnunar vegna þessa með tilheyrandi kostnaði. Íbúðalánasjóður ætti t.d. auðveldlega að getað séð um málið, enda málið skylt því sem sjóðurinn væri að fást við.   Hann myndi einnig gæta hagsmuna okkar sameiginlega sjóðs við þessi viðskipti og þar með að gæta þess að kaupverð viðkomandi eigna sé rétt og eðlilegt í hverju tilviki og að sala á eignahlutnum og uppgjör færi fram í samræmi við kvöðina.  

 

Nýtt frumvarp um hlutdeildarlán í sama tilgangi:

 

Það er ánægjulegt að sjá að fram sé komið frumvarp sem byggist í grunninn á framangreindri hugmynd. En ekki eins ánægjulegt að sjá alla þá fyrirvara og skilyrði sem uppfylla þarf samkvæmt frumvarpinu. Fyrirvarar þessir og skilyrði munu koma í veg fyrir að megnið af þeim sem þurfa á aðtoðinni að halda eigi möguleika á því að uppfylla þá/þau öll og muni því enga aðstoð fá.

Mér telst til að til að hugsanlegir umsækjendur um hlutdeildarlán samkvæmt frumvarpinu þurfi að uppfylla um eða yfir 30 skilyrði og mörg af þeim komi í veg fyrir að venjulegur umsækjandi geti uppfyllt þau öll.

Hér virðist forræðishyggjan hafa náð tökum á höfundum frumvarpsiins og þeir náð að safna saman öllum þeim fyrirvörum sem þeim gat hugsanlega dottið í hug og úr hefur orðið þessi samsetningur fyrirvara og krafna, þar sem leitað hafi verið að þeim smugum sem hugsanlegur umsækjandi gæti sloppið í gegnum og girt fyrir þær.

Helst dettur mér í hug þegar ég les kynninguna á frumvarpinu að verið sé að búa til verkefni fyrir það starfsfólk sem á að tékka af öll þessi rúmlega 30 atriði sem upp eru talin í kynningu fjölmiðla á frumvarpinu. Hvað ætli það muni kosta og hvað ætli það muni kosta deilt niður á þá fáu sem sleppa í gegnum frumskóginn. Og hvað ætli mikill tími umsækjanda fari í að finna út úr og uppfylla kröfurnar.

Var það kannske markmiðið með frumvarpinu strax í upphafi ?

Ég ætla ekki að telja hér upp þessi 30 atriði, en vísa til umfjöllunar fjölmiðla. Ég skal þó nefna dæmi um þau:

 • Horft skal til nýsköpunar í mannvirkjagerð
 • Bara má lána til nýbygginga
 • Aðeins sé lánað til íbúðar sem er miðuð við fjölskyldustærð umsækjanda
 • Eigi umsækjandi meira eiginfé en 5% af kaupverði þá lækkar lánið sem því nemur
 • Fasteignalán á undan hlutdeildarláni má ekki vera til lengri tíma en 25 ára
 • Umsækjanda óheimilt að endurfjármagna fasteignalánið nema greiða hlutdeildarlánið upp.
 • Vextir greiðist af hlutdeildarláni ef tekjur lántaka verða hærri en viðmiðin, þrjú ár í röð.

Þetta eru 7 sýnishorn af ca. 30 sem umsækjandi þarf að uppfylla til að fá stuðning samkvæmt frumvarpinu og sem koma munu í veg fyrir að góð hugmynd komist til framkvæmda og geri það gagn sem að er stefnt. Þetta er einnig sýnishorn af því hvernig einföld og góð hugmynd sé gerð það flókin að hún muni eingöngu gagnast það fáum að vandamálið muni verða áfram óbreytt og óleyst, eða sem næst því. 

Þá er bara að búa til nýja nefnd sem skila mun tillögum eftir næstu fjögur ár til að leysa það vandamál, eða hvað ?

Ítrekað er hér að hugmyndin er í báðum tilvikum að hið opinbera fjárfesti í húsnæðinu með kaupandanum og fær sitt fé til baka þegar það hefur gert sitt gagn. Hér er því um raunverulega aðstoð að ræða sem mun auðvelda unga fólkinu okkar að vera áfram íslendingar nú og til frambúðar. Sleppið öllum þessum gildrum og hindrunum sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir og byggið aðstoðina á fáum skilyrðum og gerið lán þessi aðgengileg fyrir sem næst alla sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Þeir sem ekki þurfa á því að halda munu tæplega verða margir í hópi umsækjenda og skaðinn enginn þó að einhverjir slæðist með. 

KEMUR EITTHVAÐ JÁKVÆTT ÚT ÚR NÚVERANDI KRÍSU FYRIR BYGGINGARIÐNAÐINN ?

Danir hafa gert athuganir á því hvernig Coronaveiran hefur haft áhrif á notkun stafrænna aðferða í byggingariðnaðinum þar í landi.

70% aðspurðra sögðu starfsmenn fyrirtækjanna nota stafrænar aðferðir í auknum mæli eftir að veiran fór að hafa áhrif á Danskt þjóðfélag og vegna veirunnar hafi sú þróun orðið hraðari en reiknað hafi verið með áður en hún kom upp.

90% af þeim reikna með að nota stafræn hjálpartæki eftir að coronaveiran er horfin. Þetta er vísbending um að eitthvað jákvætt muni koma út úr núverandi krísu. Það mun hafa jákvæð áhrif á greinina til skemmri og lengri tíma.

80% af þeim sem spurðir voru sögðu að starfænu tækin og aðferðirnar hefðu gert það mögulegt fyrir þá að vinna sitt verk og halda að auki uppi þeim afköstum sem voru áður en veiran birtist. 60% þeirra töldu reyndar að notkun stafrænu tækjanna hafi orðið til þess að afköstin jukust.

Það var sérstaklega nefnt að samskipta- og upplýsingakerfin hafi fengið meiri notkun í byggingargreininni, en einnig flóknari kerfi sem eru sérhæfð fyrir greinina.

Okkur fannst rétt að vekja athygli á þessari niðurstöðu dananna þar sem við reiknum með að niðurstaðan hér yrði svipuð ef kannað væri. Þetta eru jákvæðar niðurstöður fyrir þá í byggingargreininni sem eru á þeirri leið að auka notkun stafrænu tækninnar og þetta eru jákvæðar niðurstöður fyrir okkur sem fáumst við þróun stafrænnar tækni fyrir greinina.

VIÐHALDSKOSTNAÐUR REIKNAÐUR MEÐ BYGG-APPINU

BYGG-appið er hjálpartæki við ástandsskoðun á húsum að utan og innan og til að áætla kostnað við að laga það sem laga þarf og prenta út ástandsskoðanir, viðhaldsáætlanir og gögn til að nota við ákvarðanir og samninga um framkvæmdina.

Öllu sem lýst er hér á eftir er unnið í símanum, þ.e. í BYGG-appinu og er aðgangur að appinu og greiðsla fyrir ákveðinn notkunartíma þess afgreiddur við pöntun. Val er um einn, tvo eða þrjá mánuði og lokast sjálfkrafa á aðganginn að tímanum liðnum. Fjórði möguleikinn er að fá aðgang að Viðhaldskerfinu með öllu því sem það býður upp á og er þá greitt fyrir heilt ár við pöntun og í lok þess tíma fær notandinn reikning fyrir næsta ár o.s.frv. Lesa má nánar um Viðhaldskerfið á heimasíðu Hannarrs www.hannarr.com undir Tölvukerfi. 

Það sem appið gerir:

 • Appið leggur til þá verkþætti sem er líklegt að þú munir velja til viðhalds.
 • Appið sýnir þér nánar hvaða verkþættir eru í hverjum viðhaldsþætti.
 • Appið veitir þér aðgang að byggingarverðskrá BYGG-kerfisins til kostnaðaráætlana.
 • Appið býður þér upp á að breyta texta og verðum verkþátta og bæta við nýjum verkþáttum eftir þínu höfði.
 • Appið lætur verklýsingar fylgja öllum völdum verkþáttum úr BYGG-kerfinu.
 • Appið prentar ástandsskoðunina þína með athugasemdum og myndum.
 • Appið reiknar og prentar út kostnaðaráætlun þína.
 • Appið bætir við umsjónar- óvissu- og eftirlitsþáttum.
 • Appið prentar út heildar viðhaldsáætlun.
 • Appið prentar út verktakahluta áætlunarinnar.
 • Appið prentar fyrir þig verklýsingu hvers verkþáttar.
 • Appið prentar út útboðsform verksins (magntöluskrá). 

Það sem þú gerir

 • Gefur áætluninni nafn.
 • Ferð yfir viðhaldsþættina og hakar við afgreiðslu þeirra (Yfirfarið, með eða án athugasemda).
 • Gerir athugasemd við viðhaldsþættina sem þurfa viðhalds við.
 • Tekur myndir með appinu af þeim viðhaldsþáttum.
 • Færir inn magn þeirra verkþátta.
 • Bætir við verkþáttum eftir þörfum úr byggingarverðskrá eða nýjum sem þú ákveður sjálf/ur, með magni og myndum .

BRÝN NAUÐSYN Á ENDURSKIPULAGNINGU BYGGINGARFRAMKVÆMDA Á LANDINU

Hver er íbúðaþörfin á landinu nú ?

Árið 2012 birti ég grein um stöðuna á íbúðamarkaði og þróun hennar fram undan. Benti ég á að þá væri búinn sá umframlager af íbúðum sem hafði orðið til á þenslutímanum á árunum 2005-2007 og að nú þyrfti að byggja rúmlega 2000 íbúðir á ári næstu árin á landinu til að mæta nýrri íbúðaþörf.

Síðan hafa verið byggðar að meðaltali 1.400 nýjar íbúðir á ári. Því hefur myndast skortur upp á 5000 til 6000 íbúðir á þessum tíma. Ítrekað hefur verið bent á þessa óheillaþróun frá 2012 til dagsins í dag sem m.a má lesa í greinum mínum og annarra og má einnig sjá í tölum sem aðrir hafa birt, nú síðast Íbúðalánasjóður.

Á sama tíma hefur íbúum landsins fjölgað um 11,7% eða um 2,0% á ári og eru nú 356.991 samkvæmt tölum Hagtölu Íslands. Íbúðum fjölgaði á sama tíma um 6,7% eða 1,1% á ári. Nú eru 2,54 að meðaltali um hverja íbúð á landinu en voru 2,43 árið 2012. Þetta styður einnig áður nefnda niðurstöðu um íbúðaþörfina nú.

Við skulum ekki halda að íslendingar sætti sig við það að búa við versnandi aðstæður til lengdar, allra síst við batnandi hag fólks að jafnaði á landinu eins og verið hefur. Þó að nýbúar geri það í bili, sem skýrir trúlega nýjustu tölu yfir fjölda íbúa á íbúð, þá verða þeir líka íslendingar með sömu kröfur og aðrir íslendingar. Við skulum ekki bara vona það, við gerum líka kröfu um það í jafnréttisþjóðfélagi.

Íbúðaþörfin á landinu er því nú 5000 til 6000 íbúðir og síðan bætist við þörf fyrir 2000 til 2300 íbúðir á hverju ári næstu árin.  

 

Hver verður íbúðaþörfin á næstunni ?

Að það eru fleiri sem búa nú að meðaltali í hverri íbúð en áður er viðsnúningur á áratuga (eða árhundraða) þróun hér á landi. Þetta er meiri breyting en tölurnar segja til um fljótt á litið og ber að taka alvarlega. Benda má t.d. á að ef fjölgun íbúa frá árinu 2012 er deilt niður á fjölgun íbúða þá er niðurstaðan 4,21 íbúi á íbúð, sem er nánast helmingi fleiri en var árið 2012 fyrir alla íbúa deilt á allar íbúðir landsins. Þetta hefur verið að gerast á mesta velmegunartímabili á landinu.

Eru íslendingar orðnir nægjusamari en áður á húsnæði, er íbúðarhúsnæði orðið of dýrt í landinu eða eru ástæðurnar einhverjar aðrar fyrir því að fleiri búa nú að meðaltali í hverri íbúð. ?

Oft er bent á að launavísitala og íbúðaverð fylgist oftast að og þannig var það hér á landi fram að árinu 2017. Þá hækkaði íbúðaverð 12-15% umfram hækkun launa á höfuðborgarsvæðinu og hefur þessi munur haldist síðan.

Þetta háa íbúðaverð er vafalaust ein af ástæðum þess að ekki var meira byggt. Stór þáttur í háu íbúðarverði hefur verið lítið framboð af lóðum á svæðinu og há lóðagöld, sem er afleiðing af útboði á takmörkuðum fjölda lóða. Annar þáttur eru kostnaðarsamra framkvæmda við þéttingu byggðar. Þetta hefur komið í veg fyrir getu fólks til að kaupa íbúðir, sem það annars hefði getað keypt.

Afleiðingin af þessu er að fleiri íslendingar hafa flutt frá landinu heldur en þeir sem koma til landsins. Þeir eldri flytja burtu til spara sér í húsnæðiskostnaði og uppihaldi og þeir ungu m.a. vegna þess að þeir hafa ekki möguleika á að kaupa sér húsnæði hér á landi vegna íbúðaverðsins og þess skipulagsleysis sem er á íbúðarbyggingum á landinu, sem er sérkapituli og ekki fjallað um hér. Sumir reyna að flýja til „nágrannasveitafélaganna“, þar er hægt að fá ódýrar lóðir. Hætt er við að það sé skammgóð lausn til lengri og skemmri tíma litið og mæti hvorki kostnaði eða umhverfiskröfum.

Komum því skikki á þessi mál og það sem allra fyrst, með heildarskipulagi og upplýsingagjöf fyrir landið allt og eðlilegt lóðaframboð. Verð á íbúðum mun þá lækka að raungildi um 10-15%, fleirir munu eignast þak yfir höfuðið, færri vel menntaðir íslendingar munu flýja land og gjaldþrotum byggingarfyrirtækja mun fækka. Jafnvel munu nýbúarnir okkar fara að blanda sér í íbúðakaupin. 

 

Hver á að byggja ?

Með jöfnu millibili má lesa um fólk sem ætlar að fara að byggja, ekki fyrir sig sjálft heldur fyrir einhverja aðra. Stéttarfélaög, aldraðir, námsmenn, ýmis samtök, sveitarfélög o.fl. ákveða að byggja fyrir einhverja og lýsa því í fréttatilkynningum að þeir hafi lausnina á vanda þeirra sem þeir ætli að byggja fyrir og þeir muni byggja ódýrara og hagkvæmara en öðrum hafi tekist áður.

Aldrei heyrist síðan hvað þessar ódýru íbúðir urðu ódýrar þegar upp var staðið. Oftast heyrist aldrei meira í þessum aðilum en fyrir hefur komið að fréttist af svona aðilum vera að heimta aukagreiðslur af sínum kaupendum vegna þess að íbúðirnar reyndust miklu dýrari en um var samið. Ábyrgð þeirra sjálfra reyndist þá engin á því að standa við sína samninga, þeir færu annars á hausinn eða þyrftu að hætta starfsemi og tjónið myndi lenda á kaupendum og yrði meira en aukagreiðslurnar.

Þetta eru fjársvik annað hvort af ásetningi eða af kunnáttuleysi.

Markmið þessara aðila er væntanlega annað hvort að græða á því peninga eða að þeir trúa því að þeir geti gert betur en aðrir. Hvorugt eru góðar forsendur fyrir væntanlega kaupendur.

Við skulum muna að alla tíð hafa verið til einstaklingar sem hafa reynt að telja öðrum trú um að þeir geti byggt ódýrar en aðrir. Enginn af þeim hefur getað gert það og enginn er því starfandi á markaðnum nú.

Slíkir aðilar eiga ekki að fá tækifæri til að gera tilraunir til að byggja íbúðir okkar.

Réttur aðili til að byggja er fjárhagslega traustur verktaki sem hefur þekkingu og burði til að gera samninga og standa við þá og hefur sýnt að hann skili af sér góðu verki.

Þessir aðilar verða að geta unnið í góðu og einföldu skipulagi frá hendi hins opinbera þannig að þeir hafi eðlilegan rekstrargrundvöll. Það þýðir m.a. að byggingarlög verða að vera einföld og afgreiðsla erinda fljótvirk og þess gætt á landsvísu að lóðir séu ætíð til ráðstöfunar í hæfilegu magni miðað við þörf á hverjum stað og tíma. Þannig byggjum við hæfilegt magn af íbúðum af réttum stærðum til að mæta þörfum og eftirspurn á hverjum tíma og á hagkvæmustu verðunum.      

 

Fyrir hverja á að byggja ?

Félagasamtök svo sem stéttarfélaög, samtök aldraða, námsmenn, sveitafélög og samtök af ýmsum öðrum toga eiga ekki að stunda félagslega aðstoð gegnum húsbyggingar, það er ekki þeirra starfssvið og þau kunna það ekki. Að stunda félagslega aðstoð á þann hátt leiðir til þess að þeir sem þurfa minnst á henni að halda í hópnum fá hjálpina á meðan hinir eru jafnilla settir eða verr en áður. Öllum peningunum þegar verið eytt í hina vel settari.

Ef einhver heldur annað þá má vísa í dæmi um nýlega uppákomu meðal aldraðra þar sem Reykjavíkurborg lagði samtökunum til framlag með lægri lóðagjöldum en til almennings, sem endaði samt með því að samtökin innheimtu miljóna viðbótargreiðslur frá kaupendum þar sem þau urðu uppvís að því að kunna ekki að reikna, kunnu ekki að semja um framkvæmdina eða kunnu ekki að stjórna framkvæmdunum. Það er nokkuð víst að þeir fátækari í hópi samstakanna hafa varla getað lagt til þessar auka miljónir og reyndar hafa þeir varla verið í hópi þeirra sem skrifuðu undir kaupsamninginn í byrjun.

Þarna var sem sé verið að nota fjármuni okkar Reykvíkinga til að hjálpa hinum betur stæðu í samtökunum að eignast nýja íbúð. Hinir fengu ekkert.

Athygli vekur að hvergi er fjallað um innflytjendur þegar íbúðabyggingar eru á dagskrá. Frá árinu 2012 hefur innflytjendum fjölgað um nærri helming á landinu eða um rúmlega 25 þúsund.

Nokkuð víst er að skýring á hlutfallslega mikilli fjölgun íbúa miðað við fjölgun íbúða, sem áður var nefnd er þar að finna m.a., þetta fólk er ekki í hópi efnaðra íslendinga og heldur ekki í þeim hópum sem flokkaðar hafa verið í áður nefnda hópa sem staðið hafa í byggingarframkvæmdum fyrir félaga sína, alla vega ekki í ríkari hluta þeirra. Þetta fólk þarf líka íbúðir og þegar sú bylgja hefst þá er betra að vera við því búin/n.

Hættum að flokka fólk í húsnæði eftir aldri, stétt, heilsu o.þ.h. Þannig höfum við ekki búið fram að þessu í landinu og það leiðir til ójafnaðar. Hættum að nota nýbyggingar sem stuðning við hópa, það er stuðningur við þá sem eru best settir í hópnum. Hinir verða áfram útundan og án stuðnings og heildar byggingarkostnaðurinn verður meiri. Látum þá byggja sem það kunna og byggja fyrir alla. Félagsleg aðstoð er nauðsyn, en hana á að vinna af öðrum en byggingaraðilum, þeir kunna ekki á slíkt.  

NÝJUNG – STAKAR VIÐHALDS-ÁÆTLANIR Í VIÐHALDSKERFINU

Nú geta notendur Viðhaldskerfisins gert stakar viðhaldsáætlanir í kerfinu með gátlista ástandsskoðunar og appi. Skoðunarmaður notar appið til skráningar.
Hann gefur áætluninni nafn og skráir magn við þá þætti sem hann leggur til að verði teknir fyrir og færir við þá athugasemdir og myndir til nánari upplýsinga eftir þörfum. Þar sem skoðunarmaður hakar við að verkþáttur sé í lagi þá þýðir það að verkþátturinn þurfi ekki viðhalds við að hans mati.

Samtímis verður þessi áætlun til í BYGG-kerfinu sjálfu ásamt meðfylgjandi skráningu á magni, athugasemdum og myndum.

Ástæður fyrir stökum viðhaldsáætlunum geta verið ýmsar svo eigendaskipti eða að leigjandi sé að hætta leigu á íbúð og eigandi noti þá tækifærið til að mála hana og lagfæra eftir þörfum á þeim tímapunkti, þó að það passi ekki við langtímaviðhaldsáætlun eignarinnar.

NÁMSKEIÐ Í NOTKUN BYGG-KERFISINS

Er ekki kominn tími á réttar kostnaðaráætlanir, verkáætlanir og framvinduskýrslur?

Haldið verður námskeið á Selfossi í notkun á BYGG-kerfi Hannarrs fyrir tæknifólk, byggingarstjóra, verkataka og aðra sem koma að byggingaframkvæmdum föstudaginn 18. október n.k.

Á námskeiðinu kynnir Hannarr ehf. nýjustu útgáfu BYGG-kerfisins. Farið verður yfir þrjá mikilvæga þætti BYGG-kefisins og sýnt með dæmum hvernig kerfið gerir tillögur að kostnaðaráætlunum, verkáætlunum og fylgist með framvindu verka í þar til gerðum framvinduskýrslum. Einnig verður sýnt hvernig kefið heldur utan um gögn tilheyrandi verkinu.

Ef næg þátta næst verður námskeiðið haldið föstudaginn 18. október milli kl. 09:00 og 12:00 í Fjölbrautaskóla Suðurlands, Hamri, Tryggvagötu 25, Selfoss.

Þátttökugjaldið er kr. 27.000. Þátttaka tilkynnist á netfangið hannarr@hannarr.com í síðasta lagi mánudaginn 14. október n.k.

Leiðbeinandi er Jens Pétur Hjaltested er veitir nánari upplýsingar um námskeiðið með því að senda póst á hannarr@hannarr.com eða hringja í síma 898 2161.

ATVINNULEYSI FRAMUNDAN Í BYGGINGARGEIRANUM ?

Við hjá verkfræðistofunni Hannarr ehf höfum áhyggjur af stöðu starfsfólks í byggingargeiranum. Verð á eignum hækkaði um 10-15% á árinu 2017 umfram laun (launavísitölu) og hefur haldist þar síðan. Það er nú líklega að byrja að ganga til baka. Þetta gæti þýtt ca. 10% lækkun á íbúðaverði. Aðlögunarskeiðið mun verða erfitt, mörg byggingarfyrirtæki leggja upp laupana og margir í greininni missa vinnuna.

Merki þessa eru mörg, minni sementssala, fækkun íbúða í byggingu, mikil lækkun á lóðaverði í úthverfum Reykjavíkur ofl.

Séu tölur Hagstofunnar yfir störf í byggingariðnaði skoðaðar sést að enn eru skráðir álíka margir starfandi í greininni og fyrir ári (reyndar heldur fleiri) sem þýðir að áhrifin af þessu eru ekki enn komin þar fram. Minna má á að á milli áranna 2008 og 2009 fækkaði starfsfólki í greininni um ca. 7.000 sem var um 48% og átti þá eftir að fækka um tæp 3.000 í viðbót áður en aftur fór að fjölga í greininni.

Við skoðuðum þessa þróun t.d. árið 2010 og þá var okkar niðurstaða að hæfilegur fjöldi starfsfólks við byggingarstarfsemi, eins og Hagstofan skilgreinir hann væri nálægt 11 þúsundum. Síðan hefur íbúum landsins fjölgað um rúm 12% og miðað við svipaða þörf í fjölgun á störfum í byggingarstarfsemi ættu 12.000 – 12.500 manns að starfa við hana nú. Þeir eru hins vegar rúmlega 16.000. Niðurstaðn gæti þannig verið að líkleg fækkun starfa í greininni á næstunni sé um 4.000 störf. En þar sem upplýsingar um stöðuna er ónákvæm, svo sem um fjölda nýrra íbúða, uppsafnaða þörf á nýjum íbúðum sem hentar markaðnum, sem við teljum nokkur þúsund og upplýsingar skortir um skiptingu verkefna á milli íbúðabygginga og annarra byggingarframkvæmda á næstunni o.fl., þá er sú tala ónákvæm.

Við erum samt smeyk um að starfsfólk á byggingarsviðinu eigi á næstunni eftir að bætast í þann hóp sem orðið hefur atvinnuleysinu að bráð nú, þó að ekki sé búist við viðlíka fjölda og var fyrir 10 árum.