Við hjá verkfræðistofunni Hannarr ehf höfum áhyggjur af stöðu starfsfólks í byggingargeiranum. Verð á eignum hækkaði um 10-15% á árinu 2017 umfram laun (launavísitölu) og hefur haldist þar síðan. Það er nú líklega að byrja að ganga til baka. Þetta gæti þýtt ca. 10% lækkun á íbúðaverði. Aðlögunarskeiðið mun verða erfitt, mörg byggingarfyrirtæki leggja upp laupana og margir í greininni missa vinnuna.

Merki þessa eru mörg, minni sementssala, fækkun íbúða í byggingu, mikil lækkun á lóðaverði í úthverfum Reykjavíkur ofl.

Séu tölur Hagstofunnar yfir störf í byggingariðnaði skoðaðar sést að enn eru skráðir álíka margir starfandi í greininni og fyrir ári (reyndar heldur fleiri) sem þýðir að áhrifin af þessu eru ekki enn komin þar fram. Minna má á að á milli áranna 2008 og 2009 fækkaði starfsfólki í greininni um ca. 7.000 sem var um 48% og átti þá eftir að fækka um tæp 3.000 í viðbót áður en aftur fór að fjölga í greininni.

Við skoðuðum þessa þróun t.d. árið 2010 og þá var okkar niðurstaða að hæfilegur fjöldi starfsfólks við byggingarstarfsemi, eins og Hagstofan skilgreinir hann væri nálægt 11 þúsundum. Síðan hefur íbúum landsins fjölgað um rúm 12% og miðað við svipaða þörf í fjölgun á störfum í byggingarstarfsemi ættu 12.000 – 12.500 manns að starfa við hana nú. Þeir eru hins vegar rúmlega 16.000. Niðurstaðn gæti þannig verið að líkleg fækkun starfa í greininni á næstunni sé um 4.000 störf. En þar sem upplýsingar um stöðuna er ónákvæm, svo sem um fjölda nýrra íbúða, uppsafnaða þörf á nýjum íbúðum sem hentar markaðnum, sem við teljum nokkur þúsund og upplýsingar skortir um skiptingu verkefna á milli íbúðabygginga og annarra byggingarframkvæmda á næstunni o.fl., þá er sú tala ónákvæm.

Við erum samt smeyk um að starfsfólk á byggingarsviðinu eigi á næstunni eftir að bætast í þann hóp sem orðið hefur atvinnuleysinu að bráð nú, þó að ekki sé búist við viðlíka fjölda og var fyrir 10 árum.